Höfundur / Sigurður Hannesson
Þau ánægjulegu tíðindi bárust nýlega að forritun verður almennt kennd í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Það er vonandi til marks um að fulltrúar sveitarstjórna út um allt land horfi til þeirra miklu breytinga sem fram undan eru í atvinnulífinu og þeirrar nýju færni sem mannauðurinn þarf að búa yfir.
Menntun og mannauður eru mikilvægar forsendur góðra lífskjara og menntakerfið er ein helsta undirstaða þess að samkeppnishæfni Íslands verði efld. Það standa mörg spjót á íslenska menntakerfinu og úrlausnarefnin eru margvísleg. Því er mikilvægt að fyrir liggi stefnumið varðandi menntun íslensku þjóðarinnar til framtíðar þannig að mannauðurinn standist samanburð við það sem best gerist. Framtíðarsýnin þarf að markast af þeirri breyttu heimsmynd sem við blasir því staðreyndin er að menntunarstig hvers samfélags hefur veruleg áhrif á hagsæld þess og getu til nýsköpunar. Það er því til mikils að vinna að ungar kynslóðir fái þá menntun sem þörf er fyrir á hverjum tíma.
Fjórðu iðnbyltingunni sem þegar er hafin fylgja miklar breytingar á störfum og tækni. Nú þegar er orðið heilmikið misræmi á milli þeirrar færni sem atvinnulífið sækist eftir og færni þeirra sem eru á vinnumarkaði. Það sést meðal annars á því að erfitt hefur reynst að manna störf á sviði iðn-, tækni- og raungreina og blasir við að fjölga verði þeim sem útskrifast af þessum sviðum til að mæta þörfum atvinnulífsins.
Það er gjarnan nefnt þegar fjórðu iðnbyltinguna ber á góma að um 60% þeirra starfa sem grunnskólabörn munu vinna við í framtíðinni þekkist ekki í dag. Það er því nauðsynlegt að tækni- og forritunarnám verði eflt til mikilla muna til að mæta þeirri öru þróun sem þegar sjást merki um í atvinnulífinu og samfélaginu öllu. En slíkum breytingum verður ekki mætt nema með umbótum í íslensku menntakerfi.
Samtök iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Menntamálastofnun og RÚV tóku fyrir nokkru höndum saman um átaksverkefni með það að markmiði að efla forritunarkunnáttu íslenskra barna, auka vitund um mikilvægi forritunar í daglegum störfum, efla rökhugsun og stuðla að auknum áhuga á tækni- og iðngreinum. Í verkefninu fólst að nemendur fengu að gjöf forritanlegar smátölvur en með því var vakin athygli á mikilvægi forritunar og því að forritunarvinna reynir ekki aðeins á rökhugsun heldur virkjar einnig hugmyndaauðgi, skapandi hugsun og lausnamiðaða nálgun sem allt fylgir færni framtíðarinnar.
Hlutverk menntakerfisins er að rækta þekkingu, leikni og hæfni einstaklinga og styðja þannig við efnahagslega velmegun. Öflugt menntakerfi tengir saman færni mannauðsins og þarfir atvinnulífsins með skilvirkni og hagkvæmni að leiðarljósi. Þær breytingar sem fylgja stafrænni byltingu fela í sér heilmiklar áskoranir. Ör þróunin gerir kröfur til þess að breytingar verði gerðar á íslensku menntakerfi. Það er í höndum þeirra sem stýra menntakerfinu að veita nemendum á Íslandi menntun í takt við tímann.