Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-4.2 C
Reykjavik

„Mér er ekki einu sinni vært á Stokkseyri“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bergljótu Arnalds rithöfundi hefur verið vísað á dyr í menningarhúsinu Gimli á Stokkseyri þar sem hún hafði leigt sér listamannaaðstöðu. Páll Ásgeir Davíðsson, lögmaður og barnsfaðir hennar, fékk úthlutað aðstöðu í sama húsnæði og Bergljót en hún hefur sakað hann um heimilisofbeldi í áraraðir. Um er að ræða vinnuaðstöðu í menningarsetri á Stokkseyri en Bergljót ákvað að flytja til Eyrarbakka á sínum tíma til að vera sem fjærst eiginmanninum fyrrverandi.

Þrátt fyrir umleitanir þess efnis tókst Bergljótu ekki að fá Páli Ásgeiri úthýst heldur segist hún sjálf hafa fengið þau skilaboð að hún væri ekki lengur velkomin í menningarhúsið í bænum. „Mér hefur verið sagt að þetta hús, Gimli, sé ekki fyrir mig. Hvaða menningarhús er fyrir mig verður bara að koma í ljós,“ segir Bergljót.

„Það var ekki alveg samkvæmt hans hugmyndafræði að láta mér eftir listamannaaðstöðuna. Hann fór fram á að hann veldi þá daga sem honum hentaði að vera þarna.“

Fékk áfall

„Ég gerði mér grein fyrir að þau myndu leigja mér aðstöðu þar sem ætti að hafa opið rými fyrir fólk, en að maðurinn sem hefur staðið í deilum við mig í rúman áratug fái að sitja við borðið mitt og vinna þaðan sín lögmannsstörf er utan míns skilnings. Ég fékk áfall. Ég taldi mig vera að fara í samstarf við listafólk en datt ekki í hug að maður sem starfar við að stefna fólki fengi lykil sem hver annar listamaður,“ bætir Bergljót við. Bergljót er leið yfir því að hafa þurft að skila inn lyklunum því hún ákvað að setjast að á svæðinu til að fá næði til listsköpunar. Hún segir mikið hafa gengið á allt frá því hún sótti um skilnað. „Mér er ekki einu sinni vært á Stokkseyri þar sem ég hugðist fá frið. Ekki nóg með að hann sér til þess að ég missi vinnuaðstöðuna mína heldur hrellir hann mig með því að sitja á mínu eigin skrifborði og vinna þaðan að sínum málaferlum,“ segir Bergljót. „Það var ekki alveg samkvæmt hans hugmyndafræði að láta mér eftir listamannaaðstöðuna. Hann fór fram á að hann veldi þá daga sem honum hentaði að vera þarna. Það átti svo að vera undir mér komið hvort ég vildi sitja þar með honum eða ekki. Það er ótrúlegt hvað eltihrellir kemst upp með í íslensku samfélagi.“

Forsaga málsins

Bergljót hefur staðið í áratugadeilum við fyrrum eiginmann sinn Pál Ásgeir Davíðsson lögmann og hefur kært hann fyrir ítrekuð ofbeldisbrot gegn sér. Það gerði hún ekki fyrr en hjónabandi þeirra lauk en hún kærði hann fyrir heimilisofbeldi í þremur tilvikum árin 2009, 2010 og 2011. Lögregla rannsakaði málin sem leiddi til þess að tveimur kærunum var vísað frá og sú þriðja, sem talin var líkleg til sakfellis þar sem áverkavottorð lágu fyrir. Niðurstaðan var hins vegar sú að málið taldist fyrnt og því fór það ekki fyrir dóm. Páll Ásgeir, sem starfar mikið á sviði mannréttindamála og situr meðal annars í stjórn Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og rithöfundurinn Bergljót hafa barist fyrir forræði dóttur þeirra. Í dómsorði í forræðisdeilu hjónanna fyrrverandi var þeim dæmt sameiginlegt forræði árið 2014. Í þeim sama dómi var fjallað um meint ofbeldi Páls Ásgeirs gegn Bergljótu þar sem hann viðurkenndi stimpingar milli þeirra og að hafa í eitt skipti gengið of langt. Í dómnum segir að honum hafi liðið hræðilega á eftir og leitað sér í kjölfarið aðstoðar hjá sálfræðingi og sótt fundi hjá samtökum um kærleiksrík samskipti. Dómari komst í kjölfarið að þeirri niðurstöðu að engin gögn lægju fyrir um ætlaða ofbeldishegðun Páls Ásgeirs, fyrir utan eitt atvik sem hann viðurkenndi fyrir dómi.

- Auglýsing -

Vísar ásökunum á bug

Páll Ásgeir Davíðsson, lögmaður og barnsfaðir Bergljótar Arnalds, vísar því alfarið á bug að honum hafi gengið slæmt til þegar hann óskaði eftir vinnuaðstöðunni og telur sig hafa komið þangað inn á undan Bergljótu þó að hann hafi vissulega vitað að hún hefði hug á því. Að hann sé eltihrellir segir hann ekki eiga nokkra stoð í raunveruleikanum. „Fyrir það fyrsta var ég kominn þarna inn langt á undan henni. Hún hafði einhvern tímann haft það á orði að hún vildi fara þarna inn en það var bara eitthvað hugsanlega og kannski. Þar sem Bergljót var ekki með aðstöðu á menningarsetrinu og heimili hennar á Eyrarbakka var ekki tilbúið hafði ég enga ástæðu til að ætla að hún myndi vera þarna. Ástæðan fyrir því að mig vantaði aðstöðu er sú að Bergljót skráir barn okkar í skóla á Stokkseyri. Þetta var gert án nokkurs samráðs við mig og gerir það að verkum að ég þarf að keyra alla leið austur til að fara með barnið úr skóla og svo aftur heim til Reykjavíkur. Ég þurfti þessa aðstöðu einfaldlega þess vegna. Einhverja daga húkti ég á bensínstöðinni en svo var mér bent á að þarna væri hægt að fá húsaskjól til að vinna. Þetta er ekki flóknara,“ segir Páll Ásgeir.

„Ég lagði til að við finndum leið til að láta dæmið ganga upp. Ég bauðst svo til að bakka þegar ég sá hvaða vesen þetta væri.“

„Sjálfur hef ég engan áhuga á því að eiga í samskiptum við Bergljótu en við eigum saman barn og ég þarf vinnuaðstöðu þegar ég keyri hana í skólann. Það er bara ekki þannig að mér hafi gengið illt til, viljað klekkja á henni eða elta. Dóttir mín hefur verið mjög kát með að pabbi hennar sé þarna á staðnum en ég get alveg trúað því að Bergljótu hafi þótt þetta óþægilegt. Hins vegar vissi ég ekki að hún væri þarna líka og sendi henni strax upplýsingar um hvaða daga ég væri þarna svo hún gæti ákveðið hvort hún vildi koma eða ekki. Ég lagði til að við finndum leið til að láta dæmið ganga upp og ég fengi að vera þarna þá daga sem ég þurfti að keyra barnið til og frá skóla, þetta eru ekki nema 4 dagar í mánuði. Það er þvílík fásinna að ég hafi verið að eltast við Bergljótu á meðan ég er bara að bíða eftir barni okkar á mínum umgengnistíma og vinna með þær erfiðu aðstæður að barnið er í skóla langt frá heimilum sínum. Ég bauðst svo til að bakka þegar ég sá hvaða vesen þetta væri.“

- Auglýsing -

Taka ekki afstöðu í deilunni

Alda Rose Cartwright er formaður listahópsins sem leigir húsnæði menningarhússins af sveitarfélaginu Árborg. Hún segir það alveg skýrt að í upphafi hafi hópurinn ekki vitað af tengslunum milli Bergljótar og Páls Ásgeirs. Til að forðast áreitið sem fylgdi málinu var ákveðið að vísa rithöfundinum á dyr. „Þetta er fólk sem kom til okkar á mismunandi forsendum og við vissum ekki að þau væru tengd. Við þekkjum þau ekki neitt og tökum ekki nokkra afstöðu í þeirra deiluefnum,“ segir Alda Rose. Aðspurð segir Alda Rose menningarsetrið alls ekki vinnustöð ætlaða listamönnum eingöngu. „Hann vantaði afdrep. Við tókum bara vel í það enda trúum við því að fólk sé gott og í góðri trú buðum við honum því að vera. Þetta er opin vinnuaðstaða þar sem fólk getur líka komið og unnið sín lögfræðiskjöl. Þetta er ekki staður eingöngu fyrir listamenn,“ segir Alda Rose sem leggur áherslu á að Páll Ásgeir hafa komið inn nokkru á undan Bergljótu og að hann hafi dregið sig til baka að sjálfsdáðum. „Málið hefur valdið vinnustaðnum gífurlegu álagi og streitu. Við erum algjörlega hlutlaus en þetta hefur haft mjög íþyngjandi áhrif því það sem er þeirra á milli kemur okkur ekki við. Ég gerðist ekki áskrifandi að persónulegum átökum annars fólks.“

Lestu nánar um málið í Mannlífi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -