Í hverri viku tekur Mannlíf saman nokkur athyglisverð ummæli sem hafa verið látin falla síðustu daga. Hér á eftir fylgir rjóminn þessa vikuna en þemað er Samherjamálið.
„Ég var ekki hluti af starfseminni sem þú ert að vitna til en ef það færi þannig að það hefði áhrif á störf mín annars staðar þá verð ég bara að takast á við það.“
Björgólfur Jóhannsson spurður hvers vegna hann hafi tímabundið tekið að sér stöðu forstjóra Samherja.
„Þessi karlaklúbbur íslensks viðskiptalífs og stjórnmála mun aldrei deyja og mun aldrei lúffa, þeir standa saman fram í rauðan dauðann, og það skiptir í raun engu máli hvað menn gera mikið af sér, þeir munu alltaf kasta sér á bálið hver fyrir annan.“
Hallgrímur Helgason rithöfundur.
„Þetta mútuhneyksli Samherja í Afríku, sem hefur þegar kostað tvo ráðherra starfið, ætti að vekja yfirvöld á Íslandi af værum blundi. Nú er komið nóg.“
Þorvaldur Gylfason hagfræðingur.
„Mér finnst ljótt af Þorsteini Má að gera þetta fólk samsekt sér.“
Helga Vala Helgadóttir, alþingismaður og lögmaður, um þau ummæli Þorsteins Más Baldvinssonar, fyrrverandi forstjóra Samherja, að umfjöllun um meintar mútugreiðslur Samherja í Namibíu sé „árás á starfsmenn Samherja.“
„Eins og það að hann hafi gerst uppvís að stórkostlegum glæpsamlegum málum hafi eitthvað með þetta fólk að gera … Að mínu mati er þetta bara ótrúleg lágkúra, að leyfa sér þetta framferði.“
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, um fyrrnefnd ummæli Þorsteins.
„Mér finnst þessi hatursherferð gegn Þorsteini Má afar ógeðfelld.“
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
„Reiðin má ekki taka völdin. Hún má ekki verða að vonsku.“
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, segir að vonskan sé að ná yfirhönd í umræðunni um Samherjamálið.
„Vá, fólk er reiðara yfir Samherja en jafnréttisstefnu Íslandsbanka.“
Margrét Gauja Magnúsdóttir.
„Það er eiginlega sama hversu drungalegar fréttirnar eru, alltaf tekst Sindra að fá mann til að líða betur. Hann getur sagt spillingarfréttir, eins og við heyrum nú nær daglega, en samt fengið mann til að viðhalda trú á mannkyninu – jafnerfitt og það nú er.“
Kolbrún Bergþórsdóttir dásamar fréttamanninn Sindra Sindrason.