Þriðjudagur 24. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Merkir minnast Páls sem jarðsunginn er í dag: „Páll Pétursson var frábær félagi og góður vinur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjölmargir minnast Páls Péturssonar, bóndi og fyrrverandi ráðherra, með fallegum minningarorðum en hann verður borinn til grafar í dag í heimagrafreit að Guðlaugsstöðum í Blöndudal. Hann lætur eftir sig eiginkonu, þrjú börn og tvö stjúpbörn.

Páll fæddist 17. mars árið 1937 og bjó lengst af á Höllustöðum í Blöndudal. Hann lést á Landspítalanum 23. nóvember síðastliðinn. Eiginkona Páls er Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi ráðherra.

Páll lauk námi við Menntaskólann á Akureyri og hóf þá búskap á Höllustöðum. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í héraðinu en hann var kjörinn á þing árið 1974. Þar sat hann í tæpa þrjá áratugi og var lengi þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Páll var félagsmálaráðherra tvö kjötímabil og vann þar að mörgum mikilvægum málum. Hann sat einnig í Norðurlandaráði lengi vel og var tvívegis forseti ráðsins.

Ragnhildur Þóra Káradóttir, dóttir Sigrúnar, eiginkonu Páls, minnist Páls sem klettinn í stórfjölskyldunni þar sem til hans leituðu allir, hvort sem þeir voru í vanda eða til að samgleðjast með. Það gerir hún í minningargrein í Morgunblaðinu í dag. Sjálf var Ragnhildur því miður í sóttkví þegar Páll kvaddi þennan heim. „Hann minnti því oft meira á suður-ítalskan fjölskylduföður en bónda að norðan. Missir okkar allra er mikill, því að akkerið er farið. Páll kom inn í líf mitt þegar hann kvæntist móður minni og lagði í það hlutverk að taka að sér þrjár unglingsstúlkur. Við Páll náðum vel saman þegar við tókum langar umræður um Njálu og aðrar Íslendingasögur við eldhúsborðið. Hann var hafsjór af fróðleik og kunni því sem næst allar Íslendingasögurnar utanbókar,“ segir Ragnhildur og bætir við:

„Hann fræddi mig og fjölskyldu mína um íslenska menningu, allt frá Íslendingasögum til nútímans. Páll var merkilegur einstaklingur á svo margan hátt og slíkum manni er erfitt að lýsa í stuttri grein. Manni mínum þótti alveg einstakt að þótt Páll væri maður sterkra skoðana, virti hann viðhorf annarra, sem og ólíka einstaklinga. Minningarnar um jólin, sumrin í sveitinni og samræðurnar við eldhúsborðið munu ávallt lifa með okkur. Hvíl í friði kæri Páll.“

Páll undi sér best við búskap á Höllustöðum og leit fyrst og fremst á sig sem bónda. Hafði hann yndi af hrossum frá blautu barnsbeini. Lengst af sameinuðust hugðarefni hans í göngum á Auðkúluheiði þar sem hann var í nánd við hross, kindur og náttúruna, í félagskap vina og sveitunga.

„Hann minnti því oft meira á suður-ítalskan fjölskylduföður en bónda að norðan. Missir okkar allra er mikill, því að akkerið er farið“

- Auglýsing -
Finnur Ingólfsson

Þeir Páll og Finnur Ingólfsson störfuðu lengi saman í Framsóknarflokknum. Finnur minnist góðs vinar og kjarkaðs bardagamanns. „Páll var kjarkaður og hvatvís bardagamaður, orðheppinn og mælskur, sannfæringu sinni trúr og öflugur baráttumaður sinnar sveitar. Hann var stjórnsamur og lá ekki á skoðunum sínum. Margir hafa því kannski upplifað hann harðan og óvæginn en þeir sem til þekkja vissu að undir þessu hrjúfa yfirborði bærðist hlýtt hjarta.  Því hafa margir kynnst því sporleti spurðist aldrei til hans. Komið er að kveðjustund. Samleið góð vörðuð minningum mörgum og góðum er þökkuð heilshugar,“ segir Finnur.

Vilhjálmur Egilsson

Vilhjálmur Egilsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, minnist líka góðs vinar með fögrum orðum í minningargrein í Morgunblaðinu. „Páll Pétursson var frábær félagi og góður vinur. Við vorum samferða á Alþingi í tólf ár og náðum vel saman allan tímann. Páll var öflugur fulltrúi íslenska bændasamfélagsins, blanda af íhaldsmanni og jafnaðarmanni, bráðgreindur, skemmtilegur og miklu velviljaðri og hlýrri en stundum kom fram á hrjúfu yfirborðinu. Mér fannst ég læra heilmikið af Páli og er þakklátur fyrir að hafa kynnst honum. Hann var ótrúlega glöggur á samfélagið og samferðamenn sína. Guð blessi minningu hans,“ segir Vilhjálmur.

„Eitt vissu menn allra flokka að Páli var hægt að treysta. Hann stóð við orð sín og gerða samninga“

Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, starfaði lengi með Páli og minnist hans fallega í minningargrein. „Páll Pétursson var þéttur á velli og þéttur í lund, handtakið traust og maðurinn hraustlegur, fasið heilsteypt. Páll var seintekinn en traustur vinur vina sinna. Við kynnin fann maður að hinir innri þræðir hans voru ofnir úr öðru og mýkra efni en ytra byrðið. Engum sem horfði á þennan hraustlega karlmann með stórar og sterkar hendur og hrjúft yfirbragð gat dottið í hug að hann gæti sest niður og sniðið efni og saumað kjóla á konu sína eða valið fegurstu skartgripi,“ segir Guðni og bætir við:

- Auglýsing -
Guðni Ágústsson. Mynd / Skjáskot RÚV.

„Páll var listhneigður, hafði prýðilega söngrödd og einn besti hagyrðingur Alþingis. Eitt vissu menn allra flokka að Páli var hægt að treysta. Hann stóð við orð sín og gerða samninga. Menn vissu líka að hann var ekkert lamb að leika sér við í orðasennum í þingsal. Vel búinn að mælskulist og fær í rökræðu og fastur fyrir eins og bjarg. Glettinn var hann og skemmtilegastur allra á gleðistundu. Fjölskyldan var honum mikils virði, börn og barnabörn þeirra beggja, og óðalið í sumarhúsinu á Höllustöðum var eins og himnaríki. Þar söng Blanda honum söngva sína, hann var kominn heim. Drengskaparmaður er horfinn af heimi.“

Páll verður jarðsunginn frá Blönduóskirkju í dag kl. 13, að viðstöddum nánustu aðstandendum. Athöfninni verður streymt hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -