Listvinafélag Hallgrímskirkju og Mótettukór Hallgrímskirkju kynna með stolti Messías eftir Händel. Tvennir tónleikar verða á dagskrá, laugardaginn 7. desember kl. 18 og sunnudaginn 8. desember kl. 16. Tónleikarnir eru þeir fyrstu á 38. starfsári Listvinafélagsins og hluti af Jólatónlistarhátíð félagsins sem nú er haldin í 15. sinn.
Mótettukórinn, Alþjóðlega barokksveitin í Hallgrímskirkju og úrvalslið einsöngvara flytja Messías eftir Georg Friedrich Händel undir stjórn Harðar Áskelssonar. Messías er eitt háleitasta og fegursta verk tónlistarsögunnar. Flutningur á Messíasi er hátíðarviðburður sem enginn tónlistarunnandi má láta fram hjá sér fara. Mótettukór Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar Áskelssonar hefur lengi verið meðal fremstu kóra á Íslandi. Verkefnalisti kórsins er langur og fjölskrúðugur. Þar má finna fjölmargar óratóríur, passíur og sálumessur en líka kórverk án undirleiks frá ýmsum tímum, auk þess sem kórinn hefur frumflutt fjölda íslenskra tónverka og unnið til verðlauna í alþjóðlegum kórakeppnum. Alþjóðlega barokksveitin í Hallgrímskirkju er skipuð úrvalshljóðfæraleikurum víðs vegar að úr heiminum og hefur undantekningarlaust fengið frábæra dóma fyrir leik sinn. Sveitin hefur átt ómetanlegan þátt í að kynna flutningsmáta og hljóðfæri barokktímans hér á landi.
Flytjendur: Mótettukór Hallgrímskirkju, Alþjóðlega barokksveitin í Hallgrímskirkju
Stjórnandi: Hörður Áskelsson, Konsertmeistari: Tuomo Suni
Einsöngvarar: Herdís Anna Jónasdóttir sópran, David Erler kontratenór, Martin Vanberg tenór og Jóhann Kristinsson bassi