Aðalfundur UAK 2020 fór fram á miðvikudagskvöld í sal Fiskmarkaðarins, en 15 konur buðu sig fram til stjórnar og gengu fjórar nýjar konur í stjórn UAK (Ungar athafnakonur) eins og segir í tilkynningu UAK.
Þær eru Andrea Gunnarsdóttir, Bjarklind Björk Gunnarsdóttir, Ingveldur María Hjartardóttir og Kristjana Björk Barðdal, en kjörtímabil þeirra er tvö ár. Þær munu skipa stjórn UAK 2020-2012 ásamt þeim Ömnu Hasecic, Björgheiði Margréti Helgadóttur og Völu Rún Magnúsdóttur, en þær hafa nú þegar setið í stjórn í 1 ár.
Snæfríður Jónsdóttir, fráfarandi formaður félagsins, byrjaði aðalfundinn á að fara yfir starfsárið og kynnti ársskýrslu félagsins. Þá tók Björgheiður Margrét Helgadóttir, fráfarandi fjármálastjóri, við og lagði fram ársreikning til samþykktar. Kolfinna Tómasdóttir, fráfarandi viðskiptastjóri, kynnti þær lagabreytingatillögur sem lágu fyrir og voru þær allar samþykktar og má finna þær á síðu félagsins. Ein tillagan var sú að fjöldi stjórnarkvenna hækki úr sex í sjö sem var samþykkt og því voru fjórar konur kosnar inn í stjórn.
Næst var komið að framboðsræðum, en um metfjölda framboða var að ræða, 15 konur eins og áður segir. 62 félagskonur sóttu fundinn.
Edda Björk Ragnarsdóttir, viðskiptastjóri á hugverkasviði Samtaka Iðnaðarins, var gestur fundarins og sagði frá sínum starfsferli og þeim hindrunum sem hún hefur þurft að komast yfir. Hún hvatti félagskonur til þess að sækja þau störf sem þær langar í, því það er víst að ef maður sækir ekki um – þá fær maður ekki starfið.
Karen Björg Þorsteinsdóttir, uppistandari, kom svo og kitlaði hláturtaugar félagskvenna við góðar undirtektir.