Allt stefnir í að met verði slegið þegar keppt verður í bogfimi á Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fer í Þorlákshöfn um helgina.
Til keppni eru skráðir rúmlega 80 keppendur á milli 11 og 18 ára og hafa aldrei jafnmörg börn og ungmenni komið saman í bogfimi á sama tíma á Íslandi. „Fjöldinn er langt yfir væntingum,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, en búist var við um 30 keppendum í bogfimi.
Auður bendir á að meirihluti keppenda í bogfimi eigi ekki boga og fá hann að láni í keppninni. „Í bogfiminni sjá þátttakendur tækifæri til að prófa eitthvað nýtt og skemmtilegt og þeir nýta sér það,“ segir hún. „Þetta er Unglingalandsmótið í hnotskurn.“