Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur í júlíkönnun MMR en virðist tapa umtalsverðu fylgi yfir til Miðflokksins.
Könnunin var gerð dagana 4. til 17. Júlí. Samkvæmt henni mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 19 prósenta fylgi samanborið við 22,1 prósent í síðustu könnun.
Píratar eru næst stærstir og mælast með 14,9 sem er 0,5 prósentustiga aukning frá því áður.
Miðflokkurinn er hástökkvari könnunarinnar, mælist nú með 14,4 prósent borið saman við 10,6 prósent áður.
VG tapar fylgi, fer úr 11,3 niður í 10,3 prósent , rétt eins og Samfylkingin sem fer úr 14,4 prósent niður í 13,5.
Framsókn bætir við sig, fer úr 7,7 upp í 8,4 prósent á meðan Viðreisn stendur nokkurn veginn í stað með 9,7 prósent.
Flokkur fólksins mælist með 4,8 prósent og Sósíalistaflokkurinn 4,3. Samkvæmt þessu næði hvorugur flokkur manni á þing.