Lögreglan hafði í nógu að snúast í Hlíðunum í nótt en sinnti hún alls sjö útköllum í hverfinu. Hófst það á tilkynningu seinnipart dags í gær vegna aðila sem lét illa í íþróttamiðstöð í Hlíðunum. Lögregla ræddi við manninn og gekk hann sína leið eftir samtalið. Þá hafði lögregla afskipti af manni sem svaf ölvunarsvefni í bílastæðahúsi. Þegar betur var að gáð kom í ljós að maðurinn hafði þýfi meðferðis og gisti hann í fangaklefa lögreglu. Þá var brotist inn í skóla í Hlíðunum en málið er nú í rannsókn. Í nótt barst lögreglu svo tilkynning um rúðubrot í hverfinu en fyrr um kvöldið var einnig brotist inn í bifreið á sama svæði.
Lögregla og sjúkraflutningamenn voru kallaðir til í Kópavogi í gærkvöld. Þar hafði ölvaður maður dottið á höfuðið og gert var að sárum hans. Ökumaður stakk af eftir árekstur en lögregla hafði hendur í hári hans skömmu síðar og rannsakar málið. Að lokum barst lögreglu tilkynning um slagsmál en voru allir aðilar á bak og burt þegar lögregla kom á vettvang.