Dauðsföll af völdum Covid-19 í Bretlandi síðasta sólarhringinn voru fimmtíu og fimm sem eru færri dauðsföll en hafa verið skráð á einum sólarhring síðan útgöngubann hófst, þann 23. mars. Í Skotlandi og á Norður-Írlandi hafa engin dauðsföll af völdum Covid-19 verið skráð síðustu tvo sólarhringana. Sömu sögu er að segja af sjúkrahúsum í London, þar sem sjúkdómurinn hefur verið útbreiddastur, þar hefur ekkert dauðsfall verið skráð síðustu tvo sólarhringana.
Fækkun á staðfestum smitum er sömuleiðis staðreynd, á síðasta sólarhring voru skráð 1.205 ný smit, sem er lægri tala en sést hefur síðan í mars.
Í Bretlandi hafa nú verið skráð rúmlega 40.000 dauðsföll af völdum Covid-19, og landið því orðið það land í Evrópu sem misst hefur flesta úr sjúkdómnum.