Átta milljónir farþega munu fara um Keflavíkurflugvöll á næsta ári gangi farþegaspá Isavia eftir, en þetta kemur fram á vefnum ruv.is.
Mun það verða þriðja stærsta árið í sögu flugvallarins.
Sveinbjörn Indriðason forstjóri Isavia segir farþega mega búast við þrengslum; í allt gerir spá Isavia ráð fyrir að 7,8 milljónir farþega fari um flugvöllinn.
Gert er ráð fyrir að 2,2 milljónir komi til Íslands, en einungis einu sinni hafa fleiri valið Ísland sem áfangastað, en það var árið 2018.
Sveinbjörn vonast til að betra skipulag muni dreifa álagi yfir daginn:
„Þannig að við erum að sjá fyrir okkur að álagið verði kannski aðeins minna, en þetta verður virkileg áskorun. Við munum þurfa að taka á honum stóra okkar en við munum finna fyrir þessu. Við sem förum um flugvöllinn á næsta ári. Þannig að það verður þröngt, við erum í miðjum framkvæmdum en við treystum okkur alveg í þetta og þetta getur gengið.“
Svokölluð Austurálma á að opna í áföngum frá seinni hluta næsta árs; fram að lokum ársins 2024.
Segir Sveinbjörn að þegar þeim framkvæmdum ljúki verði rýmra um farþega:
„Við höfum síðustu árin bara svolítið verið að elta skottið á okkur og við munum gera það kannski til 2028, 2030. Þannig að á þeim tímapunkti geri ég mér vonir um það að við munum geta stækkað með markaðinum en ekki svolítið að hlaupa á eftir honum eins og við erum búin að vera að gera núna því vöxturinn hefur bara verið umfram getu okkar til að stækka.“