Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, var ein þeirra sem sat fyrir svörum á upplýsingafundi vegna COVID-19 kórónuveirunnar fyrr í dag.
Á fundinum undirstrikaði hún mikilvægi þess að hreyfa sig og passa vel upp á mataræðið, en hún sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum að sjá matarkörfur margra landsmanna í fréttum í gær. Þar hafi verið lítið annað en ruslfæði, eins og Þórunn sagði.
Þórunn undirstrikaði jafnframt mikilvægi þess að hjálpa þeim sem hafa það erfitt nú þegar kórónuveirufaraldurinn stendur yfir, hætt sé við að eldri borgarar og aðrir sem eru í áhættuhópum einangrist í slíku ástandi. Því sé mikilvægt að vera í góðu sambandi við aðra, vini og ættingja. Hún hvatti eldri borgara til að kynna sér og læra á tæknina, tölvur og snjallsíma. Og einnig geti allir hringt í hjálparsíma Rauða Krossins, í síma 1717, og rætt við sjálfboðaliða þar.
„Við megum ekki setjast niður og gera ekki neitt, við verðum að nota tímans til góðs.“
Þórunn benti á að þó að hún hafi beint orðum sínum til eldri borgara þá eigi þau við um alla. Mikilvægt sé að einstaklingar sem eru í betri aðstöðu en aðrir hjálpi þeim sem nú eiga erfitt, hvort sem það sé að versla í matinn eða bara hringja og tala saman.
Þórunn segir mikilvægt að halda andlegri ró, styrkja hvort annað og styðja við bakið á sínum nánustu. Það sé nánast skylda á þessum tímum.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn tók undir orð Þórunnar og segir alla geta tekið þessi skilaboð til sín, þau eigi ekki einungis við um eldri borgara.