Sóllilja Ásgeirsdóttir, sjö mánaða stúlka sem fæddist með nýrnagalla vegna þrengingar í þvagleiðara, kemst ekki í aðgerð fyrr en í lok mánaðar sökum plássleysis á gjörgæslu Landspítalans. Vísir greinir frá.
Faðir Sóllilju, Ásgeir Yngvi Ásgeirsson, segir í viðtali við Vísi að fyrirvarinn hafi verið góður. „Það kemur upp strax þegar hún er í móðurkviði að það er þrenging í þvagleiðara við annað nýrað sem gerir það að verkum að nýrað nær ekki að starfa almennilega. Það er hætta á því að það muni skemmast fljótlega ef þessi þrenging er ekki skorin í burtu”.
Sóllilja þótti of lítil við fæðingu til að hægt væri að framkvæma aðgerðina, var hún því bókuð í mars síðastliðnum en henni síðar frestað sökum þess að Sóllilja veiktist nóttina fyrir aðgerðardag. Var foreldrum hennar sagt að mæta með hana á mánudegi en var þá vísað frá vegna plássleysis.
Aðgerðinni fylgir talsvert umstang, en mikilvægt er fyrir Sóllilju að vera frísk og mæta í blóðprufur nokkrum dögum fyrir. Nóttina fyrir aðgerðina þarf hún svo að fasta. „Það er hægara sagt en gert fyrir ungbarn, þetta er mjög erfiður tími og óþarfi að gera þetta oftar en einu sinni” var haft eftir Ásgeiri. Fjölskyldan er búsett í Borgarfirði og getur því fylgt talsverður kostnaður að ferðast til Reykjavíkur með reglulegu millibili.