Biathlon er ný og spennandi íþróttagrein sem er að ryðja sér til rúms á Íslandi en íþróttin sameinar hlaup og skotfimi. Óli Þór Júlíusson, verkefnastjóri hjá UMSK, hefur verið að kynna greinina hér á landi.
„Flestir þekkja til skíðaskotfimi þar sem gengið er á gönguskíðum og skotið úr riffli á skotmark. Biathlon, eins og við erum að kynna það, er hugsað eins nema án skíðanna,“ segir Óli Þór og bætir við að Biathon geti að auki sameinað fjölda annarra íþróttagreina, allt eftir áhuga og vilja þeirra sem taka þátt.
„Í þessari íþrótt er sjálfstjórnin alveg jafnmikilvæg og úthaldið þar sem hausinn þarf að vera skýr við hverja ákvörðunartöku.“
„Þeir sem hafa prófað Biathlon á Íslandi segja þetta frábæra og stórskemmtilega hreyfingu. Allt frá byrjendum til þeirra sem eru lengra komnir þá verður til spennandi keppni þar sem ákefð og einbeiting sameinast. Í þessari íþrótt er sjálfstjórnin alveg jafnmikilvæg og úthaldið þar sem hausinn þarf að vera skýr við hverja ákvörðunartöku. Nánast allir geta tekið þátt í Biathlon. Við erum að einblína á hlaupahópana núna þannig að aldursbilið er allt frá 20 til 60 + en við getum og stefnum að því að taka á móti fólki á aldrinum 12 ára og upp úr þegar fram líða stundir. Líkamsástand þátttakenda getur líka verið á alla vegu en við getum aðlagað hlaupin að þeim sem eiga erfiðara með að hlaupa þá fjóra kílómetra sem lagt er upp með.“
Kynntust sportinu í Danmörku
Biathlon á Íslandi er verkefni á vegum UMSK sem á rafbúnaðinn sem notaður er, riffla og samtengd skotmörk. UMSK stendur fyrir Ungmennasamband Kjalarnesþings sem er regnhlíf fyrir ungmenna- og íþróttafélög í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Kópavogi, Kjós, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi.
„Framkvæmdastjóri UMSK, Valdimar Gunnarsson, fór og kynnti sér hvernig frændur okkar Danir gera þetta fyrir um það bil tveimur árum síðan og þá fór boltinn að rúlla. UMSK fjárfesti í búnaðinum og fyrsta kynningin á greininni fór fram síðastliðið sumar. Núna erum við að reyna taka skref fram á við í kynningu og erum markvisst að bjóða hlaupahópum í heimsókn til okkar. UMSK vinnur kynninguna á Biathlon í samstafi við frjálsíþróttadeild Breiðabliks og Skotíþróttafélag Kópavogs. Breiðablik hefur lánað okkur aðstöðu og mannskap til aðstoðar og Skotíþróttafélagið hefur tekið á móti áhugasömum þátttakendum í upphafi sumars og kennt á rifflana.“
Allir velkomnir í opna ókeypis tíma
Sjálfur hefur Óli Þór engan bakrunn í skotfimi en á nokkuð fjölbreyttan feril úr íþróttum. „Ég var lengi vel í fótbolta með HK en æfði einnig handbolta, dans og frjálsar íþróttir þegar ég var yngri. Seinna meir hef ég lagt stund á golf, lyftingar og utanvegahlaup mér til heilsubótar. Áhuginn á Biathlon kviknaði ekki fyrr en í vor þegar fór að vinna við það að kynna íþróttina. Við erum með opnar fríar æfingar alla miðvikudaga klukkan 17 á æfingasvæði frjálsíþróttadeildar Breiðabliks í Kópavogsdal. Það mega allir koma og taka þátt og reyna við brautarmetið en það stendur í 18 mínútum og 18 sekúndum þessa stundina. Við stefnum að því að setja upp mótaröð í september en við erum að leggja lokahönd á skipulag hennar og vonandi getum við auglýst mótaröðina á komandi vikum.
Þetta hefur verið mjög gaman og maður lærir jafnóðum þegar verið er að kynna svona nýja grein fyrir hópum. Til að mynda hélt ég að allir vissu hvernig ætti að halda á riffli bara við það eitt að taka hann upp, en það er langt frá því að vera raunin. Þátttakendur í einum af fyrstu hlaupahópunum sem kom til ykkar voru ítrekað að snúa rifflinum vitlaust þannig að ég hef lagt mikla áherslu á það framvegis í minni kynningu að tryggja að allir átti sig á hvernig hann snýr rétt.“
Óli Þór segir að þeir geti tekið á móti hópum og fyrirtækjum sem vilja gera sér dagamun. „Hvort sem hópurinn vill koma til okkar eða fá okkur eitthvað annað þá er um að gera að setja sig í samband við okkur og fá tilboð. Við erum mjög sanngjarnir í verðlagningu.“
Áhugasamir geta haft samband í gegnum Facebook-síðuna Biathlon Ísland eða með því að senda tölvupóst á [email protected].