Sunnudagur 12. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Miklu meira en bara Eurovision

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hin goðsagnakennda pólska rokkhljómsveit Kult heldur stórtónleika í Eldborg í Hörpu á sunnudag.

„Það eru um 16.000 pólskir innflytjendur á Íslandi. Okkur fannst kominn tími til að þeir fengju að berja Kult augum á tónleikum í nýja heimalandinu og gætu um leið sýnt íslenskum vinum og ættingjum um hvað pólskt rokk snýst. Íslendingar þurfa að heyra alvörugæðarokk frá Póllandi. Pólsk tónlist er svo miklu meira en það sem þið heyrið í Eurovision,“ segir plötusnúðurinn og tónleikahaldarinn Pjøtr Wasylik, sem stendur fyrir tónleikum sveitarinnar Kult í Eldborg í Hörpu næstkomandi sunnudag.

Tónleikarnir eru þeir fyrstu sem Kult heldur á Íslandi en Pjøtr segir sveitina vera goðsögn í heimalandi sínu. „Kult er hornsteinninn í pólskri dægurmenningu og hefur blásið andagift í brjóst Pólverja í yfir þrjátíu ár. Lög og textar sveitarinnar hafa til dæmis hjálpað pólsku þjóðinni að takast á við róstusama tíma á 9. og 10. áratugnum og eiga því sinn sess í þjóðfélagssögu landsins. Forsprakki sveitarinnar, Kazik Staszewski, er eins konar páfi rokksins í Póllandi og hefur enn mikil áhrif á unga tónlistarmenn þrátt fyrir að yfir þrjátíu ár séu liðin frá því að hann steig fyrst fram á sjónarsviðið,“ útskýrir Pjøtr. „Og þar sem stór hópur Pólverja býr nú á Íslandi er mikil eftirvænting í loftinu fyrir því að fá þessar rokkgoðsagnir í heimsókn.“

Beðinn um að lýsa tónlistinni sem sveitin leikur segir Pjøtr að það sé svolítið erfitt að staðsetja hana nákvæmlega en hún sé einskonar sambland af rokki, jassi og pönki og undir vissum áhrifum frá Sex Pistols, Elvis Presley og tónlist frá Balkan-skaga. Hann segir að ef að líkum lætur megi búast við kraftmiklum tónleikum á sunnudag og hann er þess fullviss að íslenskir, ekki síður en pólskir, rokkaaðdáendur muni skemmta sér á þeim. „Það að textarnir eru á pólsku ætti ekki að skipta neinu máli því tónlist er alþjóðlegt tungumál, eins og sagt er,“ segir hann. Til marks um það sé hann sjálfur mikill aðdáandi íslensks rokks, sveita á borð við MAMMÚT, Fufanu, Vök, Árstíðir, Þey og Q4U og finnst í raun ótrúlegt hvað lítil þjóð eins og Ísland hefur alið af sér mikið af skapandi og hæfileikaríku tónlistarfólki.

„Og þar sem stór hópur Pólverja býr nú á Íslandi er mikil eftirvænting í loftinu fyrir því að fá þessar rokkgoðsagnir í heimsókn.“

Spurður hvort honum finnst vera gott framboð af pólskri tónlist á Íslandi, segir Pjøtr að það sé alls ekki slæmt en gæti verið betra. „Það eru nokkrir aðilar sem hafa verið að skipuleggja pólska tónlistarviðburði hérna á Íslandi og sumir þeirra hafa staðið fyrir íslenskum tónleikum í Póllandi líka, þannig að það er einhver menningarmiðlun í gangi á milli þjóðanna. Hins vegar er munur á þekkingu Pólverja á íslenskri tónlist og þekkingu Íslendinga á pólskri tónlist. Vonandi munu tónleikarnir á sunnudag bæta úr því. Vonandi verða þeir fyrstu pólsku tónleikarnir af mörgum. Sjáum til,“ segir hann hress í bragði.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -