Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Milla Ósk segir frá fæðingarþunglyndinu: „Mér leið oft eins og ég gæti ekkert gert fyrir hann“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þegar ég fór að opna á þessa hluti við fólkið í kringum mig fannst mér nær undantekningarlaust vera mæður, og oft feður líka, sem tengdu við þessar tilfinningar. Ég fékk að heyra alls konar reynslusögur; allir virtust tengja. Mér í raun brá að heyra það og þá að fatta hversu lítið þetta er rætt opinberlega. Ég fann líka að það hjálpaði mikið að skrifa pælingarnar mínar niður á blað og ákvað því að taka skrefið og opna á þetta opinberlega. Það var mikill léttir og hlýjan og stuðningurinn sem því fylgdi gerir mig bara hálf orðlausa,“ segir Milla Ósk Magnúsdóttir sem nýlega lýsti á Facebook-síðu sinni reynslu sinni af fæðingarþunglyndi og kvíða sem hún upplifði í kjölfar fæðingar sonar síns og eiginmannsins, Einars Þorsteinssonar, fyrr á þessu ári.

Þetta voru viðburðaríkir dagar þarna stuttu eftir fæðinguna.

„Meðgangan gekk mjög vel og það var því ákveðið áfall að greinast með meðgöngueitrun. Ég greindist á föstudagseftirmiðdegi og var sett af stað strax morguninn eftir. Meðgöngueitrun fylgir oft mikill bjúgur sem fer svo fljótlega eftir fæðingu. Það gerðist aldrei hjá mér og þannig fattaðist hjartabilun. Henni fylgdi mikil vökvasöfnun og mæði þannig ég var lögð inn á hjartadeild í lyfjagjöf með Emil sex daga gamlan. Nýrnasteinakast kom svo í kjölfarið af því. Þetta voru viðburðaríkir dagar þarna stuttu eftir fæðinguna. Ég var í nokkrar vikur að ná fullum styrk og er enn á lyfjum og góðu eftirliti hjá göngudeild hjartabilunar.“

Þessi skilyrðislausa ást

Milla fór í kjölfar fæðingarinnar að finna fyrir andlegri vanlíðan og segir hún að ungbarnaverndin og yndislegu hjúkrunarfræðingarnir hjá heilsugæslunni hafi gripið sig eins fljótt og hægt var.

Maður var algjörlega vanmáttugur gagnvart kveisunni og þá var maður fljótur að sökkva andlega.

„Það er nær ómögulegt að lýsa því hvernig þetta var. Allar áhyggjur og kvíði snerust aðallega um Emil, að reyna að hjálpa honum í gegnum kveisuköst og reyna að finna út hvað væri að gerast með litla kroppinn. Maður var algjörlega vanmáttugur gagnvart kveisunni og þá var maður fljótur að sökkva andlega. Samfélagsmiðlasamanburður hefur svo aldrei hjálpað neinum og hann gerði það svo sannarlega ekki í mínu tilfelli. Það var mjög erfitt að sjá allar duglegu mömmurnar að stússast með vagnana eða í ferðalögum þegar ég átti barn sem vildi ekki sjá neitt slíkt. Mér leið oft eins og ég gæti ekkert gert fyrir hann og það er erfið tilfinning fyrir mömmuhjartað.“

- Auglýsing -

Hvernig er líkamlega og andlega líðanin í dag?

„Miklu betri. Allt fólkið mitt stóð svo þétt með mér og ég fékk mikla hjálp hjá heilsugæslunni. Emil er betri af kveisunni og við förum í göngutúra á hverjum degi.“

Milla er spurð hvað henni finnist hún hafa lært af því að ganga í gegnum þetta – bæði hvað varðar líkamlegu veikindin og þau andlegu.

- Auglýsing -

„Annars vegar hvað heilbrigðiskerfið okkar er öflugt og hins vegar hvað ég er heppin með ótrúlega sterkt og gott fólk í kringum mig.“

Emil er hálfs árs og segir móðir hans að hann sé algjör grínari og hlæi mikið. „Hann er líka mjög ákveðinn, með miklar skoðanir og vill helst mikinn mat oft á dag. Að mörgu leyti er hann því alveg eins og mamma sín. Hann veit ekkert skemmtilegra en stóru systur sínar og miðað við hvað honum finnst gott að naga bækur verður hann vonandi lestrarhestur í framtíðinni.“

Þessi skilyrðislausa ást kom á óvart.

Hvað kom Millu mest á óvart hvað varðar móðurhluverkið, hvað er auðveldast og hvað er erfiðast?

„Þessi skilyrðislausa ást kom á óvart. Ég hef auðvitað vitað að foreldrar elski börnin sín en almáttugur; maður springur af ást nokkrum sinnum á dag. Manni langar hins vegar líka að gefast upp oft á dag. Þetta er svakalegur rússibani sem er sem betur fer oft mjög skemmtilegur.“🥰

Spila og hlægja saman

Milla er lögfræðingur frá HR. Hún vann á RÚV í 10 ár og þar af sem fréttamaður í fjögur ár. Hún varð svo aðstoðarmaður Lilju Alfreðsdóttur, sem var þá mennta- og menningarmálaráðherra, og við síðustu stjórnarmyndun varð hún aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra.

Það var fyrst og fremst húmorinn sem heillaði mig við hann.

Milla kynntist eiginmanninum, Einari Þorsteinssyni, hjá RÚV en hann vann þar einnig sem fréttamaður. „Það var fyrst og fremst húmorinn sem heillaði mig við hann. Við hlægjum endalaust saman. Svo er hann líka ágætlega myndarlegur; það hjálpaði líka.“

Hún er spurð hvað ástin sé í huga hennar.

„Að standa af sér storminn saman og lyfta hvort öðru upp.“

Hvað með rómantíkina?

„Við erum eins rómantísk og hversdagsleikinn býður upp á held ég. Við störfum bæði í stjórnmálum þannig að þau eru mikið rædd á heimilinu. Svo elskum við að spila og syngja saman, borða góðan mat og láta okkur dreyma um framtíðar Frakklandsferðir.“

Milla Ósk Magnúsdóttir

Hjónin keyptu einbýlishús áður en sonurinn kom í heiminn.

„Við fundum mjög óvænt draumahúsið okkar í Breiðholtinu og stukkum á það sem betur fer því okkur líður svo vel þarna og þetta hverfi kom okkur mikið á óvart. Svo góðar gönguleiðir, allt stútfullt af barnafjölskyldum og yndislegir nágrannar.“

Hetjan

Einar fór í framboð fyrir Framsóknarflokkinn, komst áfram og er í dag borgarfulltrúi og verður svo borgarstjóri í upphafi árs 2024.

„Ég hef alltaf hvatt hann áfram í stjórnmálunum og er óendanlega stolt af honum og árangri Framsóknar í borginni í vor. Mér finnst hann óhræddur við að taka erfið mál föstum tökum og hann leysir þau vel. Hann er vakinn og sofinn yfir þessu verkefni svo ég er fullviss um að hann muni klárlega gera frábæra hluti fyrir borgina.“

Kaus Milla Framsóknarflokkinn?

„Auðvitað.“

Mamma hefur alltaf verið hetjan mín.

Móðir Millu er Erla Sigríður Ragnarsdóttir sem var í hljómsveitinni Dúkkulísunum og muna margir eftir lögunum Pamela og Svarthvíta hetjan mín.

„Mamma hefur alltaf verið hetjan mín og eftir að ég varð sjálf mamma þá finn ég hvað ég ber botnlausa virðingu fyrir henni. Dúkkulísurnar eru hrikalega skemmtilegar konur og eiga marga hittara. Fyrst og fremst hefur það mótað mig að sjá hóp af konum syngja og spila á sviðinu og gera allt vitlaust með lögunum sínum. Það er mjög hvetjandi fyrir ungar stelpur.

Þær fagna 40 ára afmæli í næstu viku með afmælistónleikum og eru frábært dæmi um að það þarf ekki að hætta að hafa gaman þó maður verði stór.“

Milla Ósk Magnúsdóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -