Líkur eru á að veður geti valdið röskun á flugi á morgun. Farþegar sem eiga bókað flug hvattir til að fylgjast vel með framvindu mála.
Farþegar sem eiga bókað flug um Keflavíkurflugvöll á morgun eru á vef Isavia hvattir til að fylgjast vel með upplýsingum frá flugfélögunum. Þar kemur fram að veður geti valdi röskun á flugi. Líkur séu á að Reykjanesbraut lokist í dag og verið lokuð fram eftir degi á morgun.
Í samtali við RÚV segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, að lítilsháttar seinkanir geti orðið á flugi á morgun, þótt útlit fyrir flug sé ágætt. Flugfélagið greip til þess ráðs í gær að fresta stórum hluta millilandaflugs síns í dag og tókst þannig að afstýra því að Keflavíkurflugvöllur fylltist af strandaglópum Að sögn Ásdísar Ýr tókst að endurbóka alla sem áttu flug í dag. Flýttu hátt í 500 för sinni og komust leiðar sinnar áður en óveðrið skall á.