Bylting verður í rekstri stórfyrirtækisins Þorbjarnar hf. í Grindavík um mánaðarmótin þegar börn stofnendanna skipta á milli sín togurum fyrirtækisins. Þetta kemur í framhaldi þess að landvinnslu fyrirtækisins í Grindavík er hætt.
Gunnar Tómasson, einn eigenda Þorbjarnar, upplýsti þetta í samtali við Morgunblaðið. Fram kemur að þrír hópar barna skipta á milli sín skipum og kvóta sem eru gríðarleg verðmæti. Hver hópur verður með sjálfstæða starfsemi í fyrirtækjum sem eru milljarðavirði.
„Niðurstaða eigenda Þorbjarnar hf. var sú að skipta fyrirtækinu upp í þrjú rekstrarfélög, sem hvert og eitt einblínir á útgerð eins skips. Eignarhald fyrirtækjanna þriggja verður það sama og er í Þorbirni hf,“ segir Gunnar við Morgunblaðið.
Synir Gunnars Tómassonar taka við útgerð togarans Hrafns Sveinbjarnasonar GK með því sem tilheyrir, svo sem veiðiheimildum.
Synir Eiríks Tómassonar heitins, verða með rekstur Tómasar Þorvaldssonar GK.
Gerður Sigríður Tómasdóttir og synir hennar hafa með höndum rekstur þriðja fyrirtækisins sem mun gera út nýtt skip, Huldu Björnsdóttur GK.
Gunnar útskýrir þessa breytingu með því að breytingin sé gerð til þess að fleiri fjölskyldumeðlimir komist að í rekstrinum.
„Svo var komið að margir í okkar fjölskyldu vildu taka þátt í rekstri Þorbjarnar og svo allir fengju að njóta sín var farið í þessa uppskiptingu, sem nú er að komast til framkvæmda. Vissulega töpum við einhverri samlegð og hagræðingu með þessari ráðstöfun, en fáum í staðinn meðal annars starfskrafta ungs fólks með kraft og nýjar hugmyndir,“ segir Gunnar við Morgunblaðið.
Faðir Gunnars, Tómas Þorvaldsson, stofnaði fyrirtækið á sínum tíma. Það er í dag eitt af stærstu fyrirtækjum landsins í sjávarútvegi.
Samherji hf. fór ekki ólíka leið þegar fyrirtækinu var skipt upp í þágu barna stofnendanna sem fengu afhent gríðarleg auðævi.