Föstudagur 10. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

MIMRA: „Meira skemmtilegt og minna leiðinlegt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

MIMRA er listamannsnafn Maríu Magnúsdóttur, en hún segist hafa samið tónlist undir þessu nafni síðan 2014. Áður gaf hún út tónlist undir eigin nafni. Mannlíf fékk að heyra í þessari flottu tónlistarkonu eftir útgáfutónleika hennar í Salnum í Kópavogi 1. apríl.

Takmarkað upplag á vínyl er uppselt

„Útgáfutónleikarnir gengu stórkostlega. Ég hélt þá í Salnum í Kópavogi með hljómsveitinni minni. Salurinn er stórglæsilegur tónleikastaður og gaf hann tónleikunum virkilega fágaða og fallega umgjörð. Með mér spiluðu Stefán Örn Gunnlaugsson á hljómborð og hljóðgervla, Sólrún Mjöll Kjartansdóttir á trommur, Helga Ragnarsdóttir á hljómborð, Sam Pegg á bassa og þau Sylvía Hlynsdóttir og Elvar Bragi Kristjónsson á trompeta. Ég hef sjaldan upplifað skemmtilegra kvöld og betri áhorfendur. Það besta er að þetta voru bæði upptöku- og útgáfutónleikar þannig að á næstunni má fólk eiga von á að sjá upptökur frá tónleikunum. Sérstakar þakkir til Lista- og menningarsjóðs Kópavogs, Menningarsjóðs FÍH og Tónlistarsjóðs Rannís, sem styrktu verkefnið og gerðu að veruleika.

eins og eitt heildstætt listaverk

MIMRA fer víða, í grunninn mætti kalla tónlistina art popp eða „alternative“ þjóðlagapopp. Hljóðheiminum í tónlistinni hefur verið lýst sem einstaklega aðlaðandi, fáguðum og háleitum. Hann er tilfinningaríkur og ljóðrænn með einstaka dýpt og í víðáttumiklu rými. Metnaðarfull og áhugaverð blanda af óhefðbundinni þjóðlagatónlist með áhrifum raftónlistar, djass og daðri við kvikmyndatónlist. Samofið og sameinað í eina heild.

María segist hæstánægð með viðtökurnar og segir jafnframt að hún sé stolt af því hvernig nýja platan nær því að vera eins og eitt heildstætt listaverk. 

„Hvert og eitt lag flæðir inn í það næsta og myndar platan þannig eina heild. Þetta er eitthvað sem ekki var hægt að heyra meðan ég sendi frá mér eitt og eitt lag af plötunni á streymisveitur í aðdraganda útgáfunnar, sem var einmitt 1. apríl. Nú er platan komin út og hægt að hlusta á verkið í heild sinni. Stefán Örn Gunnlaugsson, upptökustjóri og aðalsamstarfsmaður minn, á mestan heiður að því hvernig hljóðheimurinn og flæðið kom heim og saman. Við gáfum út takmarkað upplag á vínyl. sem er uppselt, og ég hef fengið virkilega góðar viðtökur og er hæstánægð.“

MIMRA. Ljósmyndari: Anna Maggý

Nafnið rakst ég á í Fimbulfambi – orðaspilinu

María sendi frá sér sína fyrstu plötu árið 2009 sem var meira r&b- og funk-skotin. Á meðan hún bjó í Hollandi í tónlistarnámi fóru tónsmíðarnar að breytast og þróast meira í átt að stærri útsetningum. „Ég einbeitti mér mikið að tónsmíðum og hljóðfæraútsetningu samhliða því sem ég samdi og spilaði reglulega í raftónlistarbandi, svo þannig varð til einhver ný nálgun hjá mér. Þegar ég fékk svo tækifæri til að koma fram á „heyrnartóla-tónleikum“ með eigin efni 2014 þá fann ég að ég vildi gefa þessu verkefni nýtt nafn og síðan hef ég kallað mig MIMRU.

- Auglýsing -

Spurð um heyrnartóla-tónleikana segir María að þeir hafi í rauninni verið upptökutónleikar þar sem áhorfendur sátu með heyrnartól á milli tónlistarmannanna og allt um kring. „Ég útsetti þarna nokkur lög fyrir 14 manna hljómsveit með strengjum og blásurum. Upptökur frá þessu eru á Youtube. En MIMRU-nafnið rakst ég hins vegar bara á í Fimbulfambi, orðaspilinu, fyrir langa löngu og hugsaði með mér að það gæti verið flott listamannsnafn.“

notið góðs af hæfileikaríku fólki

Þá hefur hljómsveitin verið mismunandi uppsett að sögn Maríu, en hún segist hafa átt skemmtilegt samstarf við marga hljóðfæraleikara síðan verkefnið hófst og notið góðs af hæfileikaríku fólki. „Ég sendi frá mér fyrstu plötu MIMRU, Sinking Island, árið 2017 sem ég tók upp og hljóðblandaði samhliða námi mínu í Goldsmiths University of London. Það var frumburðurinn. Finding Place er núna komin út, árið 2022, fimm árum síðar og ég er þróaðari í minni tónsköpun og heildarmynd. Á tónleikum hingað til hef ég ýmist komið fram ein, með meðalstóru bandi eða stórhljómsveit. Nú finn ég að það væri gaman að halda áfram með sama fólk í kringum mig og stefni að því í áframhaldinu.“

MIMRA. Ljósmyndari: Anna Maggý

Meira skemmtilegt og minna leiðinlegt

Það er stórt verkefni að fylgja plötu úr hlaði svo ég held því aðeins áfram næstu misseri með tónleikum og almennri athyglissýki – nei, ég segi svona. Ég vona auðvitað að tónlistin nái eyrum sem flestra og reyni að vinna að því. Annars stefni ég á gott sumarfrí, meira skemmtilegt og minna leiðinlegt. Ég kem fram á Reykjavík Fringe Festival í sumar, annars sé ég bara til og reyni að fylgja flæðinu og innsæinu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -