Þorgrímur Þráinsson rithöfundur var gestur á upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra nú síðdegis. Hann sagði nokkur hvatningarorð á fundinum og vitnaði í þjálfarann Lars Lagerbäck sem mun hafa sagt að litlir hlutir skapi stóra sigra. Þorgrímur segir þau skilaboð eiga vel við þessa dagana.
Þorgrímur hvetur landsmenn til að taka þátt í lestrarverkefninu Tími til að lesa sem Lilja Alfreðsdóttir, mennta-og menningarmálaráðherra, hleypti af stokkunum í upphafi mánaðar.
Þorgrímur er mikill talsmaður lesturs og segir læsi vera mikilvægt lýðheilsumál. Hann hvetur foreldra ungra barna til að virkja þau í lestri og biðja börnin um að staldra við ef þau skilja ekki þau orð sem koma fyrir í þeim texta sem þau eru að lesa og skrifa þau niður á blað. Hann segir að hægt sé að búa til leik út lestrinum.
„Þá er t.d. hægt að líma eitt nýtt orð á ísskápinn á hverjum degi og biðja börnin um að finna út hvað orðin þýða,“ sagði Þorgrímur. Hann sagði rannsóknir sýna að læsi skiptir miklu máli hvað sjálfstraust barna varðar.
Í lokin minnti Þorgrímur fólk á að rétta fram hjálparhönd til barna ef þau þurfa á aðstoð að halda. Hann segir mikilvægt að veita börnum athygli og hjálp, ekki síst núna.