Bryndís Sigurðardóttir, fyrrverandi sveitastjóri á Tálknafirði, situr nú svekkt í Covid-sóttkví eftir að hafa hlúð að slösuðum ferðalöngum í morgun sem ultu á voldugum jeppa sem ekið var úr gagnstæðri átt. Hún þakkar fyrir að vera hreinlega á lífi og að allir ferþegar jeppans hafi sloppið lífs af úr slysinu. Aftur á móti áttu ferðalangarnir að vera í sóttkví og því er nú jólahátíð Bryndísar í uppnámi.
Það eru ekki bara jólin heldur líka flutningar sem fyrirhugaðir voru hjá Bryndísi sem nú eru í uppnámi. Hún fjallar um atburðinn í færslu á Facebook: „Takk fyrir aðskildar akreiknar. Í morgun rann voldugur jeppi til á akreininni á móti mér og skipti engum togum að hann kom á móti mér í loftköstum og stöðvaðist loks milli akreina, á hliðinni. Í bílnum var ungur maður með móður sína og ömmu sem er 83 ára gömul. Sem betur fer virðist þau ekki hafa slasast nema önnur konan var með slæmsku í öxl, en auðvitað í miklu sjokki, þær þurftu að skríða út úr bílnum í gegn um loftlúguna,“ segir Bryndís og bætir við:
„Ég tók þær inni í bílinn minn meðan við biðum eftir hjálp og hlúði að þeim eftir bestu getu, bölvaði því að hafa alveg nýlega fjarlægt teppi sem ég er oftast með í bílnum en breiddi úlpuna mína yfir þær. Þetta fór allt ótrúlega vel miðað við loftköstin og velturnar á bílnum. EN, síðan kom í ljós að þau áttu öll að vera í sóttkví! nýbúin með fyrra test úr landamæraskimun. Nú situr því litla ég, eins og holdsveik því enginn vill koma nálægt mér, flutningur í húsið mitt sem átti að vera í dag frestast eitthvað og jólin jafnvel í uppnámi. Ég væri hins vegar örugglega dauð ef ekki væri fyrir aðskildar akreinar.“
Takk fyrir aðskildar akreiknar. Í morgun rann voldugur jeppi til á akreininni á móti mér og skipti engum togum að hann…
Posted by Bryndís Sigurðardóttir on Monday, December 21, 2020