Móðir Atla Þórs Ólafssonar minnist sonar síns í dag en hann lést í Mexíkó í síðasta mánuði. Hann var þar búsettur undanfarin þrjú ár ásamt þarlendri unnustu sinni. Atli Þór var 36 ára gamall er hann lést.
Atla Þór er minnst í Morgunblaðinu í dag. Þar segir móðir hans, Brynja Höskuldsdóttir, það þyngra en tárum taki að skrifa minningarorð um son sinn. „Elsku fallegi drengurinn minn. Það er meira en tárum taki að setjast niður og skrifa minningarorð um þig. Þú þessi góði drengur sem máttir ekkert aumt sjá, sama hvort það voru menn eða dýr. Það var alltaf sterkur strengur á milli okkar. Þú sagðir oft að ef eitthvað kom upp á hjá þér brást það ekki að síminn hringdi og mamma var í símanum. Ég fann á mér ef þér leið illa, þýddi ekkert að leyna mig því. Svona vorum við elsku karlinn minn. Ég á svo góðar minningar um þig sem ég geymi í hjarta mínu. Vona að þú sért sáttur og líði vel. Elska þig,“ segir Brynja.
Atli Þór fæddist 22. apríl á sjúkrahúsinu á Ísafirði. Hann lést í Mexíkó 18. september síðastliðinn. Atli átti tvær systur, þær Hjördísi Ernu og Írisi Ösp. Síðustu ár hafði hann verið lengi búsettur erlendis, í Danmörku, á Spáni og nú síðast í Mexíkó frá árinu 2017.
Áður en hann flutti til Mexíkó bjó Atli Þór um hríð á Íslandi. Þess minnist Hrefna frænka hans. „Símtal snemma á laugardagsmorgni í september líður ekki úr minni. Að fá þær fréttir að Atli væri látinn. Elsku Atli sem mér þykir svo óskaplega vænt um, svo hlýr og hláturmildur, hann hafði svo innilegan og smitandi hlátur. Ég er búin að vera í lífi hans frá því hann fæddist, auðvitað mismikið eins og gengur. Við oft hvort í sínu landinu, hann búinn að búa í Danmörku, Spáni og nú síðast í Mexíkó. Minningarnar streyma fram. Dagurinn sem hann fæddist sem bar upp á páskadag það árið. Honum fannst spennandi að gista hjá okkur Sigga, þótt við byggjum þá heima hjá mömmu og pabba. Hann gat verið frekar fyrirferðarmikill þegar hann svaf, kom fyrir að Siggi flúði um miðja nótt,“ segir Hrefna og bætir við:
„Spánarferðin þegar ég og mamma komum þangað. Hann snerist í kringum okkur. Þegar Spánarferðin var í undirbúningi spurði ég Atla hvað hann langaði í frá Íslandi. Hann var ekki lengi að hugsa sig um, rúgbrauð, marineraða síld og matarkex. Hann vantaði sárlega matarkex, það sem hann ljómaði þegar ég kom með þetta. Hann gaf sko engum með sér, þetta átti bara hann. Tárin flæða að skrifa þessi orð, elsku Atli, ég trúi að þú sért kominn á góðan stað, umvafinn fólkinu okkar sem þú ert búinn að sameinast í sumarlandinu.“
Friðrik Hagalín Smárason minnist góðs vinar síns með fallegum orðum. „Ég trúi þessu varla enn þá. Langar svo mikið til að hafa samband við þig en get það ekki, því nú er það orðið of seint. Atli var góður vinur og á milli okkar voru alltaf sterkar taugar. Þó ólíkir værum var samband okkar alltaf sterkt. Hann átti sér stað í hjarta mínu og ég er viss um það hafi verið gagnkvæmt. Já, Atli var svo sannarlega traustur vinur. Við áttum mjög gott tímabil þegar við fórum báðir í AA og huguðum mikið að andlegum málefnum, tímabil sem mótaði mig og gerði að þeim manni sem ég er í dag. En því miður féllst þú aftur og þá varð bara ekki aftur snúið. Þú fluttir frá Ísafirði til Reykjavíkur, til Danmerkur, Barcelona, aftur til Reykjavíkur og endaðir svo í Mexíkó. Þú naust þín vel á nýjum stöðum en svo fljótlega virtist allt fara í kaldakol,“ segir Friðrik sem segir marga munu sakna vinar síns.
„Atli var alltaf í góðu skapi, sætur og hress. Maður sem lifði fyrir líðandi stundu. Þessir eiginleikar gerðu hann afar kvensaman. Hann átti margar kærustur og nokkrar vinkonur í gegnum tíðina og margar þeirra syrgja hann í dag. Núverandi kærasta hans heitir Hedna Gal. Vil ég sérstaklega votta henni mína innstu samúð.“