Sunnudagur 5. janúar, 2025
-8.2 C
Reykjavik

Móðir svipt forsjá þrátt fyrir að barnsfaðir hafi játað kynferðisbrot: „Allt í einu er ég sek“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég er móðirin sem fyrir nokkrum mánuðum síðan var svipt forsjá, fyrir það eitt að neita að samþykkja umgengni án eftirlits við mann sem hefur brotið kynferðislega gegn barninu mínu, ásamt tveimur öðrum börnum,“ skrifar móðir barns sem fyrrverandi sambýlismanni var dæmd forsjá jafnt í Héraðdómi og fyrir Landsrétti.

Honum var dæmd forsjá þrátt fyrir að vera ásakaður um að brjóta á kynferðislega á barninu og hefur sjálfur viðurkennt að hafa brotið kynferðislega gegn hálfsystur sinni þegar hún var fimm ára og hann rétt að verða fjórtán ára.

Þá bar stjúpsystir mannsins einnig vitni fyrir dómnum þar sem hún kvað hann hafa misboðið sér kynferðislega þegar hann var á sextánda ári en hún á barnsaldri. Vitnisburður kvennanna tveggja hafði ekki áhrif á niðurstöðu dómsins.

Rannsókn á hendur föðurnum var felld niður en í ljósi þeirra gagna sem hafði verið aflað þótti ekki ástæða til áframhaldandi rannsóknar málsins. Það var gert þrátt fyrir að aldrei hefði farið fram læknisrannsókn á barninu og það ekki heldur verið tekið í viðtal eða meðferð í Barnahúsi.

Stundin greindi frá niðurstöðu dómsins og nú hefur móðirin stigið fram og segir sögu sína á vefsíðu samtakanna Líf án ofbeldis

„Þetta er ekki eðlilegt“

- Auglýsing -

„Nú eru tvö ár síðan ég kærði fyrrverandi sambýlismann og barnsföður minn fyrir kynferðisbrot gegn barninu okkar.

Þegar ég tók fyrstu skrefin í að segja frá því sem ég hafði lengi verið hrædd um að væri að gerast, og sem dóttir mín var þá nýbúin að segja frá, hélt ég í fyllstu alvöru að ég myndi fá hjálp. Ég leitaði til Stígamóta, sem ráðlögðu mér að leita til Barnaverndar, sem ég gerði, og stuttu síðar til lögreglunnar.

Lögreglukonan sem tók við kærunni er fyrsta manneskjan sem sagði skýrt við mig: „Móðir til móður – Þetta er ekki eðlilegt og ég myndi ekki treysta þessum manni fyrir barninu mínu“.

- Auglýsing -

Þá fyrst fór ég að hætta að efast um að allt sem hann var búinn að telja mér trú um að væri eðlilegt, væri í raun ofbeldi.

En það er ekkert eðlilegt við það að menn séu daglega að fá standpínu þegar þeir eru að sinna barninu sínu. Það er heldur ekkert eðlilegt að þegar það gerist, að taka barnið inn í annað herbergi og tilkynna að „við ætlum aðeins að kúra“.

Það er ekkert eðlilegt að blása á kynfæri barnsins“.

„Pabba skegg kitlar“

Og SAMA HVER hvötin á bakvið svona hegðun er, þá er ekkert eðlilegt að þvinga barn að alast upp í slíkum aðstæðum.

Það er ekkert eðlilegt koma að manninum þar sem buxur hans eru ógirtar, og bleyja barnsins toguð niður að framan. Það er ekkert eðlilegt að ég sé þá sökuð um að ímynda mér hluti og að „ég ætti ekki að vera komin heim svona snemma“.

Það er ekkert eðlilegt að barnið mitt biður mig um að „nota ekki marga putta“ þegar ég er að fara að skipta á því.

Það er heldur ekkert eðlilegt að barnið mitt segist vera illt í klofinu, því „pabba skegg kitlar“.

Og það er ekkert eðlilegt að eftir allt þetta er mér sagt að treysta þessum manni fyrir barninu mínu, því samkvæmt kerfinu; dómurum, sálfræðingum og sýslumannsfulltrúum, á ég ekki að hafa áhyggjur. Heldur þarf ég að finna leiðir til að treysta honum“.

Fellt niður vegna skorts á sönnunargögnum

Við förum í Barnahús og þar er barnið mitt svo hrætt að ekki er hægt að skoða það. En það er ekki horft á það sem vísbendingu um að eitthvað gæti mögulega verið að. Ekki er reynt að tala við barnið. Okkur er ekki boðin frekari aðstoð. Í staðinn er málið fellt niður „vegna skorts á sönnunargögnum“.

Á meðan á lögreglurannsókn stendur leggur faðir inn beiðni um að fá fulla forsjá og að ég fái umgengni aðra hverja helgi, á þeim grundvelli að ég sé að tálma.

Þrátt fyrir að ég bjóði honum í sáttameðferð og að við gerum samning um umgengni.

Þrátt fyrir að ég, á þeim tíma, sé samkvæmt kerfinu ekki að tálma heldur að sinna skyldum mínum og stoppa umgengni til þess að tryggja öryggi barnsins míns.

Eftir þetta stígur systir hans fram og lýsir mjög grófu kynferðisbroti af hans hálfu gegn henni þegar hún var barnung.

Skylda mín að tryggja vernd barnsins

Stuttu seinna kveður dómari upp bráðabirgðaúrsurð um aukna umgengni við föður– án þess að talað væri við mig, barnið mitt, eða systur hans. Einfaldlega er litið á frásögn mína, barnsins míns og systur hans sem „einhliða gagnaöflun móður“. Ógilt bara.

Ég fæ ekkert annað um að velja en; að annað hvort halda áfram að bjóða umgengni undir eftirliti, og þá fara gegn úrskurði, eða að láta þvinga mig til þess að setja barnið mitt í aðstæður þar sem ég veit að hefur áður verið brotið á því.

Allt í einu breytist skylda mín að tryggja vernd barnsins gegn ofbeldi í brotahegðun!

Og af því að þessi úrskurður um umgengni var kveðinn upp geta faðirinn og dómskerfið núna sagt mig tálma, og eftir þetta er komið fram við mig eins og ÉG sé sakborningur.

Allt í einu er ég „sek“ um að fylgja ekki dómsúrskurði.

Enginn býður mér aðra leið til að tryggja öryggi barnsins. Enginn sýnir vilja til þess að tryggja öryggi barnsins“.

Þarf vitni að heimilisofbeldi?

„Ég býð sáttafund með dómurum og sálfræðingi og þar er HLEGIÐ að hugmynd minni um umgengni undir eftirliti fagaðila. Eins og það sé fráleit hugmynd að vilja örugga umgengni. Og að trúa því að það gæti verið í boði. Ég er í staðinn hvött til að finna leið til að treysta honum. Öll ábyrgðin lögð á mig.

Sama viðhorf ríkir í dómssal. Ég er ásökuð og þarf að svara fyrir það, hvers vegna ég tel mig eiga rétt á að fara gegn úrskurði. Ofbeldið sem hann hefur beitt er ekki lengur inni í myndinni og þegar ég bið um orðið til að minnast á ástæðuna fyrir því að við séum hér yfir höfuð er „sussað“ á mig.

Fyrir dómi vitna tvær konur um brot hans gegn þeim þegar þær voru barnsungar en það fær ekkert vægi. Allt vægi lagt í hans vogarskálar þar sem „ fólkið hans“ segist aldrei hafa séð neitt. Og þá bara gerðist ekkert?

Gerist heimilisofbeldi ekki nema einhver annar sjái til?

Brjóta kynferðisbrotamenn gegn börnum fyrir framan fjölskyldu og vini sína?

Þegar ég segist aftur ekki geta treyst honum til að gæta öryggi barnsins, er forsjáin tekin af mér“.

Eftirlitslaust umgengni við barnaníðing

„Forsjáin er tekin af mér – móður sem er fullhæf til að annast barnið sitt, móður sem hlýtur traust annarra foreldra að sinna börnunum þeirra – fyrir það eitt að gera það sem KERFIÐ HEFÐI ÁTT AÐ GERA – vernda barnið mitt. Það er eina „gilda“ ástæðan sem er gefin upp. Ég er talin ólíkleg til að stuðla að eðlilegum samskiptum og umgengni.

Það er ekkert sem fyrir barni heitir eðlileg samskipti við mann sem hefur brotið gegn því.

Í staðinn fyrir að að túlka viljaleysi mitt til að láta barnið mitt í eftirlitslausa umgengni við barnaníðing sem ábyrgð, sem ég er að sýna sem foreldri þess, og að ég set hagsmuni og velferð barnsins okkar í fyrsta sæti, er það túlkað sem óhlýðni.

Afhverju myndi ég vilja fara gegn úrskurði ef ég teldi það ekki vera beint gegn hagsmunum barnsins að fara eftir honum? Þau rök vantar alveg og þau rök virðast ekki skipta neinu máli.

Ofbeldið skiptir engu máli í kerfinu.

Líðan barnsins skiptir engu máli.

„Óhlýðni“ mín skiptir öllu máli, og fyrir það er barni refsað!“

Hafði trú á að fá hjálp

„Hvernig getur verið, að dómsvald fyrst og fremst taki ákvörðun um að skikka barn í umgengni við mann þar sem liggja fyrir frásagnir og lýsingar á kynferðisbroti hans – þá sérstaklega án þess að hafa heyrt orð í okkur þolendunum eða athugað afstöðu, vilja og líðan barnsins.

Þar var tekinn af mér rétturinn til að halda áfram að vernda barnið mitt. Tekinn af barninu mínu réttur til verndar – öllu snúið við og allt í einu er ég ofbeldismanneskjan sem er sek um að „tálma“.

Hvernig getur verið að það sé réttlætanlegt að taka forsjá af móður, sem sér enga aðra leið til að vernda barnið sitt gegn frekara ofbeldi en að stoppa umgengni, því hún hreinlega fær ekki hjálpina sem hún er að biðja um. Hjálp sem kerfið lofar okkur öllum! Hjálp sem ég virkilega hafði trú á að væri til staðar.

Hvað hefði ég getað gert öðruvísi?

Hvar er valmöguleikinn um umgengni þar sem velferð barnsins er sett í fyrsta sæti?

Þar sem vilji afbrotamannsins hefur minnst vægi?

Þar sem ég þarf ekki að gerast „brotleg“ til þess að koma í veg fyrir að barnið mitt verði fyrir frekari skaða?

Hverju tapar kerfið á því að hlusta og trúa? Engu.

Hverju tapar barnið mitt á að vera hrifsað frá móður sinni og þvingað inn í aðstæður þar sem það hefur áður orðið fyrir ofbeldi? ÖLLU“.

Hafðu hátt!

Eins og þetta væri ekki nóg en nú liggur fyrir hótun um aðför. Faðir óskar þess að lögreglan komi og taki barnið úr umsjá móður sinnar sem er eina öryggið sem barnið þekkir, með valdi, og samkvæmt framgöngu og niðurstöðu sáttarfundar er það eina sem getur stoppað þetta er ég – með því að bakka og leyfa eftirlitslausa umgengni.

Þetta eru ómanneskjulegar kröfur. Og ÖLL ábyrgðin er sett á mig. Ég er látin bera ábyrgð á því hvort aðförin verði framkvæmd, því önnur leið til að stoppa hana er ekki til?

Það eru ómannúðlegt að vilja það að hún sé framkvæmd.

Það er ómannúðlegt að samþykkja það!

Það er mannréttindabrot af hálfu kerfisins að tryggja ekki vernd barnsins!

Það væri mannréttindabrot af hálfu dómsstóla og lögreglu að beita valdi til að komast inn á heimilið okkar og trámatísera barnið.

Það yrði áfall og hefði í för með sér óafturkræfar afleiðingar sem myndi lita líf barnsins míns.

Það er EKKI BARNINU FYRIR BESTU að láta taka það með valdi úr því örugga umhverfi þar sem því líður vel og er að blómstra í – einungis í þeim tilgangi að koma því í umsjá til einhvers þar sem er tvímælalaus hætta er á áframhaldandi ofbeldi.

Önnur leið verður að vera til – það getur ekki verið að þetta sé það sem er talið það besta fyrir börn.

Ég vil biðla til ykkar allra sem hafa lesið þetta að vera ekki sama.

Ef þú hefur tök á því bið ég þig um að hafa hátt um þetta.

Ef þú hefur vald til þess að stoppa þetta – gerðu það!

Forsvarskonur félagasamtakanna Líf án ofbeldis hafa lesið dóminn og önnur gögn sem fylgja málinu og staðfesta réttmæti frásagnar móður.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -