Á borgarstjórnarfundi fyrr í dag ræddi Alexandra Briem um það bakslag sem orðið í málefnum trans fólks.
Nokkuð hefur verið um undanfarna mánuði og sérstaklega undanfarna daga að samtök og einstaklingar hafi verið að birta misvísandi og hatursfull skilaboð og áróður sem beinast gegn trans fólki. Alexandra Briem, borgarfulltrúi, ræddi þetta mál á borgarstjórnar fundi fyrr í dag.
„Umræða síðustu daga hefur verið erfið,“ sagði Alexandra í upphaf ræðu sinnar á fundinum í dag. „Bakslagið sem við höfum verið að upplifa í réttindabaráttu hinsegin fólks hefur sprungið fram með offorsi sem ég hefði ekki átt von á að sjá. Upplýsingaóreiða, lygar og rætnar persónulegar árásir. Ég hef séð mynd af mér í dreifingu á samfélagsmiðlum með texta um að ég sé veik á geði, með vísun til þess að ég sé trans, og umræðan sem fylgdi var ekki falleg, ég hlutgerð og talað mjög illa um mig. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem ég hef upplifað svoleiðis, en rætnara og persónulegra en oft áður.“
Alexandra vill meina að þetta sé innflutt hatursmál. „Erlendis hefur verið unnið í því að einangra þau sem eru reið og upplifa sig afskipt, ýta undir tortryggni og ýta þeim frá öllum sem gætu komið með réttar upplýsingar eða svarað fyrir þær ásakanir sem í samsærunum felast. Þegar það hefur tekist eru svo byggðar upp fáránlegar samsæriskenningar sem engin gætu ímyndað sér sem ekki eru inni í því upplýsinga-svartholi.“
„Við megum alls ekki leyfa þessari vitleysu að dreifast til Íslands og ná hér fótfestu. Allir stjórnmálaflokkar hér hafa til þessa staðið sig í því hingað til að segja skýrt að þessi barátta muni ekki ná hér fótfestu, þeir muni ekki sigla á þau mið að sækja fylgi á kostnað jaðarsetts hóps og þeir muni ekki taka þátt í þeirri upplýsingaóreiðu og lygum sem haldið er á lofti. Það er ekki sjálfgefið,“ sagði Alexandra um málið.
Mbl.is greindi frá