Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú hvort skotið hafi verið að bifreið Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Bifreiðin, sem er í eigu Dags og fjölskyldu hans, var fyrir skemmdum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu en utan tilkynningarinnar verst lögregla allra frétta. „Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú mál sem snýr að skemmdum sem voru unnar á bifreið borgarstjórans í Reykjavík, en málið er litið mjög alvarlegum augum. Rannsóknin beinist m.a. að því hvort skotvopn hafi verið notað við verknaðinn og eins hvort málið tengist öðru frá því í síðustu viku þar sem voru unnar skemmdir á húsnæði Samfylkingarinnar í Sóltúni í Reykjavík. Bifreiðin, sem varð fyrir skemmdum, er í eigu borgarstjóra og fjölskyldu hans. Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu,“ segir í tilkynningunni.