Málverk sem stundum hefur verið kallað Mona Lisa Afríku hangir nú uppi á listasýningunni ART X Lagos.
Málverkið Tutu eftir nígeríska listmálarann Ben Enwonwu, sem hefur stundum verið kallað Mona Lisa Afríku, var sýnt um helgina á sýningunni ART X Lagos í Nígeríu.
Þetta er í fyrsta sinn sem verkið er sýnt síðan það komst í leitirnar í fyrra eftir að hafa verið týnt í rúmlega 40 ár. Verkið hafði þá hangið uppi í íbúð í London í öll þessi ár en engar upplýsingar voru til um hvar verkið væri niðurkomið eða hver eigandinn væri. Þegar verkið fannst var það sett á uppboð og seldist á upphæð sem nemur um 194 milljónum króna. Þessu er sagt frá á vef CNN.
Þess má geta að verkið var málað árið 1974. Verkið var hluti af seríu sem samanstendur af þremur málverkum, hin tvö verkin eru enn þá týnd.