Þriðjudagur 29. október, 2024
5.1 C
Reykjavik

Mótlætið styrkir mann

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er bjartsýnn þrátt fyrir erfiða stöðu tengda COVID 19-heimsfaraldrinum. Hann segist trúa því að Íslendingar muni koma hraðar til baka heldur en flestar aðrar þjóðir meðal annars vegna þess að við höfum sjálfstæðan gjaldmiðil. Bjarni er mikill fjölskyldumaður, nýorðinn afi og hann notar útivist til að rækta líkama og sál.

Sprittbrúsi stendur á skrifborðinu. Heimsfaraldurinn COVID-19 sýnir sig með þessum hætti inni á skrifstofu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.

„Það er óumflýjanlegt að samfélagið allt verður fyrir höggi vegna faraldursins og atvinnuleysi er það sem er ástæða til að hafa mestar áhyggjur af. Ég hef hins vegar mjög sterka sannfæringu fyrir því að við getum komið sterk út úr faraldrinum; við komum í sterkri stöðu inn í þessa efnahagslægð en það er gríðarlega dýrmætt að hafa búið í haginn fyrir erfiðari tíma. Við njótum góðs af því núna. Svo fengum við fyrir nokkrum dögum staðfestingu á lánshæfismati ríkissjóðs.“

Í vikunni var tilkynnt að fjármála- og efnahagsráðuneytið áætli að áhrif mótvægis ráðstafana stjórnvalda á sjóðsstreymi ríkissjóðs á yfirstandandi ári vegna kórónuveirunnar nemi ríflega 200 milljörðum króna eða sem svarar til um 7 prósentum af vergri landsframleiðslu.

Bjarni segir að ríkissjóður þoli nokkuð þungt högg. „Við getum tekið mörg lán til þess að fást við skammtímaáhrifin vegna COVID-19 og við munum taka mjög há lán núna til þess að styðja við fólk og fyrirtæki og sömuleiðis til þess að fara í framkvæmdir. En það sem öllu máli skiptir er að við getum síðan sýnt fram á að við getum verið sjálfbær þegar við höfum fundið nýtt jafnvægi. Ríkissjóður getur ekki bæði tekið á sig höggið af því sem er núna að gerast og rekið sig síðan með ósjálfbærum hætti í framtíðinni; það er eiginlega lykilatriðið. En við ráðum alveg við það sem við höfum þegar ákveðið en það verður mjög mikil breyting. Skuldahlutföllin versna og vaxtabyrðin sömuleiðis. Það er þó þess virði vegna þess að við náum með þessum aðgerðum að draga úr dýpt efnahagslægðarinnar; ef maður notar sama líkingamál og menn gera með útbreiðslu kórónuveirunnar þá náum við að fletja út þessa kúrfu og munum koma sterkari út úr þessu vegna þeirra aðgerða sem við erum að grípa til.“

„Við komum í sterkri stöðu inn í þessa efnahagslægð en það er gríðarlega dýrmætt að hafa búið í haginn fyrir erfiðari tíma. Við njótum góðs af því núna. Svo fengum við fyrir nokkrum dögum staðfestingu á lánshæfismati ríkissjóðs.“

Bjarni segist trúa því að Íslendingar muni koma hraðar til baka heldur en flestar aðrar þjóðir meðal annars vegna þess að hér á landi er sjálfstæður gjaldmiðil. „Það er líka vegna þess að við erum með vel menntaða þjóð og við höfum það sem er reyndar mjög dýrmætt í þessari stöðu: Við höfum nýfengna reynslu af því að fara úr því að hafa fáa erlenda ferðamenn yfir í að hafa mjög marga. Þetta gerðum við bara síðasta áratug. Við megum svo ekki gleyma öllu hinu sem bíður okkar á öðrum sviðum; við þurfum að sækja alls staðar fram. Það eru tækifæri í orkuskiptum, við gerðum nýlega samning um að stórauka grænmetisframleiðslu í landinu og það eru tækifæri í matvælaframleiðslu sem fær mann til að hugsa um sjávarútveginn sem þarf að halda áfram að sækja fram á mörkuðum og fá betra verð og leiðir til þess að auka verðmæti sjávarfangs. Við eigum enn þá töluvert mikla orku og ég er sannfærður um að fyrir utan það sem tengist matvælaframleiðslu þá liggi tækifæri þar.

- Auglýsing -

Svo eru það rannsóknir og nýsköpun. Við gætum gert svo margt með skilvirkari hætti. Mér finnst eitt besta dæmið um það vera það sem við erum að gera með Stafrænu Íslandi sem hefur fengið aukna vigt með allri þeirri þörf sem skapaðist fyrir stafræna þjónustu með COVID-19. Við eigum stöðugt að spyrja okkur hvort við getum gert betur og leita nýrra leiða til að takast á við áskoranir. Og ekki síst eigum við að nýta auðlindir í víðu samhengi skynsamlega hvort sem þær auðlindir eru hugvit, tími eða náttúran sjálf. Ég hef stundum sagt að við eigum að koma út úr þessu sem sterkara Ísland og ég get sagt að við ætlum að fara í nýja uppfærslu. Það verður Ísland 2.0. Og það gildir bæði fyrir opinbera geirann og einkageirann.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Samstíga stjórnarflokkar

Stjórnarflokkarnir þykja hafa verið samstiga í aðgerðum gegn COVID-19 og bara almennt. Sumir spáðu ríkisstjórninni ekki langlífi og áttu ekki von á að flokkarnir þrír gætu unnið saman. Friður og traust virðist hins vegar ríkja á milli flokkanna.

- Auglýsing -

„Það hefur tekist gott samstarf við að móta tillögur til lausnar. Ég held að við höfum snemma sammælst um nokkra mikilvæga þætti eins og að fylgja góðum ráðum þeirra sem best þekkja til, hlusta eftir reynslu annarra og líka að draga lærdóm af því sem við sjálf höfum áður gengið í gegnum. Það hefur slípast til í þessu stjórnarsamstarfi í gegnum öll þau mál sem við höfum þurft að fást við þannig að það er bara gott traust á milli fólks.“
Bjarni segir að gott samstarf og traust sé á milli hans og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. „Það að vera góður samstarfsmaður felur í sér í huga mínum að maður viti hvað viðkomandi vill þegar við erum sammála og líka þegar við erum ósammála. Ég held að þannig samstarf hafi verið milli okkar allra í forystu ríkisstjórnarinnar, formanna flokkanna þriggja og reyndar bara gott samstarf á milli ráðherranna almennt.“

Bjarni segir að það sem hafi komið sér mest á óvart í samstarfi þeirra Katrínar sé hvað þau nálgist oft mál með ólíkum hætti. „Þá á ég til dæmis við að Katrín getur verið smámunasamari en ég hef tileinkað mér og það getur verið mikill kostur en stundum finnst mér það vera galli.“

Bjarni segir að hann geti ekki sagt að það hafi margt komið sér á óvart varðandi samstarf stjórnarflokkanna en ef hann ætti að nefna eitthvað þá segir hann að það geti verið töluverð vinna að vera með þrjá flokka við borðið. „Oft og tíðum fer meiri tími og meiri vinna í það að stilla saman strengi en ég hefði kannski gert ráð fyrir. Ég er almennt ánægður í þessu stjórnarsamstarfi. Ég held að við séum með samsetningu á ríkisstjórn sem henti langbest við þær aðstæður sem eru uppi í landinu og blöstu við eftir síðustu kosningar.“

„Ég er almennt ánægður í þessu stjórnarsamstarfi. Ég held að við séum með samsetningu á ríkisstjórn sem henti langbest við þær aðstæður sem eru uppi í landinu og blöstu við eftir síðustu kosningar.“

Bjarni segir að fyrir nokkrum árum hefði hann ekki getað séð fyrir sér að Sjálfstæðisflokkuirnn og Vinstri græn gætu myndað saman ríkisstjórn.
„Það hafði gengið mjög margt á eftir hrun og auðvelt að nefna dæmi eins og Landsdómsmálið, aðildarumsóknina að Evrópusambandinu og mjög ólíkar áherslur í skattamálum svo nokkur dæmi séu tekin sem maður hefði ætlað fyrir fram að útilokuðu samstarf. Það sem gerðist síðan einfaldlega eftir snemmbúnar kosningar 2016 og aftur 2017 er að við höfðum einfaldlega skyldu til að leggja okkur fram um að gera það sem hægt var í stöðunni. Við settumst niður og þegar við lögðum til hliðar þessi hefðbundu ágreiningsmál þá fundum við alveg nógu marga stóra snertifleti til þess að setja saman ríkisstjórn. Og ég held að þetta hafi verið hárrétt mat hjá okkur.“

Makríllinn

Bjarni hefur verið mjög harðorður í makrílmálinu og er hann spurður hvað honum finnist um að útgerðir hafi verið að herja á ríkissjóð.
„Ég er þeirrar skoðunar í makrílmálinu að ríkið hafi haft mjög góðar varnir. Þær byggðust á
sterkum, lagalegum rökum þannig að ég vildi halda því alltaf til haga að við vorum tilbúin til þess að taka til varna og ég hafði ágætar væntingar um að við myndum hafa árangur í vörninni. Engu að síður verður maður alltaf að gera ráð fyrir því að svona mál geti farið illa. Það voru hafðar uppi þarna gríðarlega háar kröfur sem mér fannst algerlega óverjandi að skattgreiðendur í landinu myndu bera kostnaðinn af. Þetta var í raun og veru í grunninn ágreiningur um það hvernig aflaheimildir í makrílveiðum dreifðust innbyrðis á milli þeirra sem ætluðu að stunda veiðarnar.

„Það voru hafðar uppi þarna gríðarlega háar kröfur sem mér fannst algerlega óverjandi að skattgreiðendur í landinu myndu bera kostnaðinn af.“

Ef ríkissjóður átti að sitja uppi með 10 milljarða króna kostnað vegna þess hvernig sú ákvörðun var tekin þá vildi ég bara að það væri skýrt að ég myndi leggja til að það kæmi á endanum með einhverjum hætti aftur út úr sjávarútveginum, og út úr makrílveiðunum sérstaklega, einfaldlega vegna þess að mér fannst það vera óverjandi að sá reikningur endaði hjá skattgreiðendum.“

Ýmiss konar gagnrýni

Flokksforysta Sjálfstæðisflokksins hefur undanfarin ár legið undir ýmiss konar gagnrýni svo sem frá flokksmönnum, annars vegar frá þeim sem telja flokkinn vera of íhaldssaman og hins vegar frá þeim sem telja hann ekki vera nægilega íhaldssaman og ekki voru allir ánægðir með þegar flokkurinn fagnaði 90 ára afmælinu að fólk úr öðrum stjórnmálaflokkum mætti. „Við efndum til mjög látlausrar athafnar á Valhallarreitnum og ef menn geta ekki á svona hátíðardegi lyft sér upp yfir hin daglegu ágreiningsmál á vettvangi stjórnmálanna þá held ég að það sé illa komið fyrir mönnum. Þetta var hátíðarstund og gleðidagur og ég var bara ánægður með að fá fólk úr öðrum flokkum til að segja að það gleddist með okkur þennan dag.“

Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi formaður flokksins, hefur gagnrýnt forystumenn flokksins í ritstjórnarskrifum og finnst flokkurinn hafa villst af leið í pólitík. Bjarni segir að sumt af því sem lögð er áhersla á í Morgunblaðinu hafi komið sér á óvart. „Mér finnst Morgunblaðið heilt yfir almennt vera að tala fyrir til dæmis efnahagsstefnu sem er líkleg til árangurs en mér finnst alveg hafa verið dæmi um áherslur í blaðinu sem ég finn ekki samleið með.“ Bjarni er spurður hvort það andi köldu á milli þeirra Davíðs. „Ég upplifi það ekki þannig. Það eru einfaldlega ekki mikil samskipti eins og staðan er.“

Varðandi frekari gagnrýni þá hefur flokksforysta Sjálfstæðisflokksins meðal annars verið gagnrýnd fyrir að svíkjast undan merkjum með því að samþykkja Icesave-samninginn, fyrir að hafa heykst á að afturkalla umsókn að Evrópusambandinu, fyrir að hafa farið gegn vilja flokksins í þriðja orkupakkamálinu og fyrir að fara ekki gegn þungunarrofsfrumvarpinu.
Hvernig finnst Bjarna að sitja undir þessari gagnrýni?

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

„Ég verð að lýsa mig ósammála á þessari lýsingu á framgöngu flokksins. Tökum bara Evrópusambandsmálið sem dæmi. Við greiddum atkvæði gegn aðildarumsókn við Evrópusambandið; við lögðum til þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknina strax í upphafi. Í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leystum við upp samninganefndina. Evrópusambandinu var tilkynnt að viðræðunum væri lokið og menn benda þá á þetta formsatriði að afturkalla umsóknina með sérstakri þingsályktun sem í mínum huga er orðið algert aukaatriði í stóra samhengi hlutanna. Það eru engar viðræður í gangi við Evrópusambandið og það myndi enginn flokkur láta sér detta það í hug að fara aftur af stað án þjóðaratkvæðagreiðslu eins og ég les stöðuna núna. Þannig að ég sé ekki Evrópusambandið sem eitthvert mál sem Sjálfstæðismenn sem ekki vilja ganga inn í sambandið ættu að vera ósáttir við.

Icesave-málið á sér langa sögu og við börðumst gríðarlega hart gegn fyrstu samningunum en við flest í þingflokknum stóðum með síðustu samningunum í Icesave sem við síðan lögðum til að færi til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og það gerðist reyndar ekki nema fyrir tilstilli þáverandi forseta. Ég tel að þau rök sem við höfðum fyrir máli okkar á þeim tíma standist vel skoðun. Ég vil meina að barátta okkar í því máli hafi skilað gríðarlega miklum árangri.

Önnur mál sem nefnd voru finnst mér einfaldlega ekki vera af þeirri stærðargráðu að það eigi að kalla fram mikla óánægju innan Sjálfstæðisflokksins hvort sem það heitir þriðji orkupakkinn eða annað.“

Bjarni er kominn með harðan skráp og segist hafa lært ákveðna auðmýkt með tímanum þegar kemur að gagnrýni. „Maður lærir að bera virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum. Ég ætla ekki að segja að þetta sé alltaf auðvelt. En mótlætið styrkir mann. Með því að sigrast á erfiðleikum þá verður maður sterkari til þess að fást við enn erfiðari mál.“

Femínisti

Flokksforystu Sjálfstæðisflokksins hefur verið hrósað fyrir að fara með flokkinn í átt til framtíðar – að verið sé að breyta ásýnd flokksins og nútímavæða hann.
„Þjóðfélagið hefur breyst. Það er ekki sama stóra málið og áður var að við til dæmis deilum ábyrgðinni á að stýra samfélaginu, karlar og konur. Mér finnst það ekki hafa verið sama stóra, djarfa ákvörðunin hjá mér að kalla konur úr þingliðinu til forystu í flokknum eins og það hefði kannski verið fyrir 20 árum. Við vorum með of langa sögu þess að það hallaði á konur í flokknum og mér fannst þurfa að bregðast við því. Þetta er eitt af því sem ég held að margir hugsi um þegar talað er um ásýnd flokksins. En kannski líka ekkert síður það að við höfum fengið ungt fólk til forystu í flokknum og það finnst mér líka mikilvægt. Mér finnst mjög mikilvægt að senda þau skilaboð út í samfélagið að við eigum að treysta ungu fólki og ungt fólk með reyndara fólki getur haft gríðarlegu miklu hlutverki að gegna. Og fyrir Sjálfstæðisflokkinn skiptir máli að við eigum fulltrúa ólíkra aldurshópa til þess að færa inn í umræðuna sjónarmið og áherslur þessara ólíku hópa við mótun á lögum og reglum. Þannig hef ég lagt áherslu á að við erum flokkur sem á að geta höfðað til allra Íslendinga um allt land á öllum aldri. Við erum flokkur sem vill tryggja ákveðið jafnvægi í samfélaginu þar sem við trúum á kraftmikið efnahagslíf og þéttriðið velferðarnet og frelsi einstaklingsins.“

Bjarni er umkringdur sterkum konum í ríkisstjórn og í eigin flokki sem hafa talað fyrir réttindum kvenna og jafnrétti. Er Bjarni femínisti? „Ég er það. Ég hef oft setið með hörðum femínistum og fengið þessa spurningu og ég svara þessari spurningu alltaf játandi.“

Fótbolti, handbolti og U2

Bjarni Benediktsson er Garðbæingur og hefur búið þar alla tíð nema þegar hann bjó erlendis upp úr tvítugu.

Handbolti og fótbolti var aðaláhugamálið á æsku- og unglingsárunum og Bjarni æfði og keppti hjá Stjörnunni.

Hljómsveitirnar Wham og Duran Duran voru allsráðandi á þessum árum og er ráðherrann spurður hvort hann hafi verið Wham- eða Duran Duran-maður. „Ég man eftir þessu; maður varð að gera upp á milli þessara tveggja hljómsveita. Ég var frekar Duran Duran-maður en ég var þó mest fyrir U2.“

Faðir Bjarna var hæstaréttarlögmaður og sat Bjarni oft á menntaskólaárunum og lærði á lögmannsskrifstofu hans. „Ég hafði svolítið drukkið það í mig að lögmannsstarfið væri spennandi sem og leyndardómar lögfræðinnar sem fylgja því að vera inni á lögmannsstofu innan um alla skjalabunkana, dómasafnið og gömlu fræðibækurnar. Það togaði dálítið í mig.
Ég hóf nám í lögfræði við Háskóla Íslands eftir stúdentspróf og var dálítið óviss um hvort ég væri að velja rétt en þegar upp var staðið var ég bara mjög ánægður í náminu.“

Bjarni segist aðeins hafa tekið þátt í starfi ungra Sjálfstæðismanna í Garðabænum eftir tvítugt og var formaður um hríð. „Ég átti marga vini í Garðabænum sem tengdust starfinu auk þess sem pabbi var oddviti Sjálfstæðismanna í bæjarstjórninni. Ég ólst upp við það að bera út Garða, sem er málgagn Sjálfstæðismanna í Garðabæ, og gekk auk þess í götuna okkar og seldi happdrættismiða fyrir Sjálfstæðisfélagið í bænum.“

Sumir hafa sagt í gegnum árin að Bjarni hafi fæðst með silfurskeið í munninum og að hann skorti þaf af leiðandi skilning á aðstæðum þeirra sem búa að annarri reynslu. „Ég held að ég njóti góðs af því að hafa alist upp á hógværu og öruggu heimili. Ég gekk í gegnum sama skóla og íþróttastarf og aðrir og hef þurft að sækja árangur minn á mínum eigin forsendum. Þótt fjárhagslegt öryggi sé mikilvægt ver það ekki fólk fyrir áföllum í lífinu. Ég þekki engan sem er kominn á fullorðinsár sem ekki hefur þurft að takast á við einhverja erfiðleika. Ég hef auðvitað fundið fyrir því að fólk vísar í þennan bakgrunn minn til þess að halda því á lofti að mann skorti skilning á aðstöðu fólks. En ég hef eiginlega ekkert annað um þetta að segja en að fara fram á að ég verði dæmdur af verkum mínum. Og þegar fólk fer yfir það sem ég hef verið að beita mér fyrir, svo sem hvernig framlög til hinna ýmsu málaflokka hafa verið að þróast þann tíma sem ég hef verið hér í fjármálaráðuneytinu, þá held ég að það sjáist að við höfum lagt metnað í að gera Ísland að betra samfélagi, fyrir alla.“

Orðinn afi

Æskuást og eiginkona Bjarna er Þóra Margrét Baldvinsdóttir. Þau kynntust í grunnskóla og voru í sama vinahópnum. „Svo leiddi eitt af öðru og smám saman fórum við að vera saman.“ Bjarni er spurður hvað sé mest heillandi við Þóru. „Það er kannski fagurkerinn í henni og hún nær að gera allt fallegt og skemmtilegt í kringum sig. Hún er ótrúlega góð mamma og heldur heimilinu gangandi í fjarveru minni. Hún er líka traustur vinur.“
Hjónin eignuðust sitt fyrsta barn þegar Bjarni var 21 árs og Þóra Margrét tvítug. Þau eiga fjögur börn á aldrinum 8-28 ára.

Fyrsta barnabarnið fæddist í vor. Bjarni segist grínast með að því fylgi virðingarstaða í samfélaginu að vera orðinn afi. „Ég finn fyrir því að maður fær aukna vigt við það að verða afi. Það er ekki spurning. Ég upplifi mikil tímamót. Svo varð ég líka fimmtugur í upphafi árs og lífið heldur áfram. Svona leiðir það mann inn á skemmtilegar, nýjar brautir. Það er ekki síst gaman að sjá hvað foreldrar afabarnsins hafa blómstrað í hlutverki sínu; þeir fá þarna nýtt hlutverk og allt breytist.“

„Ég finn fyrir því að maður fær aukna vigt við það að verða afi. Það er ekki spurning. Ég upplifi mikil tímamót.”

Hvað fjölskyldulífið varðar segir Bjarni að þau hjónin reyni að hafa börnin glöð og að þau nái árangri í því sem þau séu að fást við. „Við reynum að fá þau til að skilja að það gerist ekkert nema að leggja sig fram og ef það er gert þá sé allur heimurinn undir og allt sem þau geta látið sig dreyma um gæti orðið að veruleika. Við reynum að halda hópinn og hafa reglu á heimilinu þannig að við borðum saman og nýju samskiptaforritin hjálpa okkur við að deila upplifun úr daglega lífinu. Ég myndi segja að við værum samrýmd fjölskylda.“

Útivistarmaður

Það er mikið að gera hjá ráðherranum og hann segir að sér hafi reynst erfitt að aðskilja vinnu og einkalíf.
„Það er mjög krefjandi að vera með þetta hlutverk og sinna á sama tíma stórri fjölskyldu. Ég reyni að gera mitt besta. Þetta eru langir dagar og verkefnin koma með mér heim. Og þau koma með mér í frí. Síminn er harður húsbóndi, maður er stanslaust í samskiptum. Þó að maður hefði viljað hafa meiri tíma til þess að sinna fjölskyldunni þá hefur þetta allt gengið einhvern veginn.“

Bjarni segist reyna að kúpla sig út úr álaginu með því að stunda reglulega hreyfingu. „Ég hef mjög sterka þörf fyrir að hreyfa mig. Það er ekki bara til þess að ég hlaupi ekki í spik heldur fæ ég líka andlega útrás með því. Ég þarf einhverja viðspyrnu. Eitthvert viðnám. Líkamlegt viðnám. Ég lyfti lóðum, hjóla, veiði og fer í fjallgöngur. Ég var uppi á jökli um síðustu helgi. Ég hef mjög gaman af golfi en hef lítið getað sinnt því. Ég sæki í útiveru. Auðvitað notar maður tónlist og hittir góða vini sína, fylgist með íþróttum og við fjölskyldan ferðumst saman. Svo hef ég áhuga á ljósmyndun, myndlist og bíómyndum og leita þá yfirleitt að því sem ekki er framleitt í Hollywood.“

Bjarni er spurður göngustaðir séu í uppáhaldi. „Ég held ég verði að segja að það sé Laugavegurinn. Mögnuð leið og svo fjölbreytt. Að koma inn í Þórsmörk er líka stórkostlegt þegar farinn er Fimmvörðuháls. Ég hef farið nokkuð víða, veitt um allt land, gengið á Hornstrandir, farið Strútsstíg og komið upp á jökla. Í sumar ætla ég í Fljótavík en líka á Langanes, svo ég fer hornanna á milli. Mývatn er einn allra fallegasti staður á Íslandi fyrir utan Þingvelli og báðir staðir magnaðir jafnt að vetri sem sumri. Mér finnst landið einfaldlega vera stórbrotið.“

Bjarni Benediktsson. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Björt framtíð

Bjarni vill halda áfram að vinna fyrir Íslendinga. „Ég hef gefið það út að ég hyggist gefa kost á mér áfram eftir landsfund og það er í höndum flokksmanna að veita mér þá umboð eða ekki. Staðan hjá mér er einfaldlega sú að mér finnst ég vera að fást við mjög mikilvægt verkefni og þau hafa vaxið að mikilvægi við þá atburði sem hafa nýlega orðið. Ég finn fyrir stuðningi frá nánasta samstarfsfólki mínu og ég finn fyrir hvatningu frá því til að láta ekki verk úr hendi falla. Og það hjálpar mér. Ég hef líka stuðning að heiman til þess að halda áfram. Við viljum vera áfram leiðandi afl í þessu þjóðfélagi og byggja upp. Og ég er bara bjartsýnn. Ég er til í slaginn.“

Bjarni er spurður hvað Ísland sé í huga hans. „Það er fyrst og fremst fólkið sem býr hérna, menningin sem við eigum, sagan okkar frá landnámi og sjálfstæðisbaráttan, að hafa komist af hérna í gegnum aldirnar undir einokun og í einangrun. Við höfum lifað af faraldra og alls konar náttúruhamfarir. Við Íslendingar áttum mjög erfitt um aldir og fyrir rúmri öld fluttu margir brott vegna fátæktar og fárra tækifæra en við höfum síðan brotist til þessarar ótrúlegu velsældar. Ísland er í dag á svo margan hátt fyrirmyndarríki og á enn bjartari framtíð fyrir sér.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -