Í gær auglýstu bifhjólasamtökin Sniglarnir mótmæli fyrir utan Vegagerðina vegna banaslyss sem varð á Kjalarnesi á sunnudaginn. Mótmælin áttu að fara fram í dag klukkan 13.00 þar sem úrbóta á hættulegum vegarköflum yrði krafist.
G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, greindi þá frá því í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að mótmælin hefðu breyst í samstöðufund.
„Þeir hittu okkur forstjórann í gær og þá hættu þeir við að halda mótmælafund og þeir ætla að halda frekar samstöðufund. Af því að þeir vita það eins vel og við að við stöndum í því saman að auka umferðaöryggi,“ sagði hann meðal annars.