Elísabet Englandsdrottning er sögð hafa sagt sonarsyni sínum, Harry, að hann er „velkominn til baka“ snúist honum einhvern tímann hugur en Harry og eiginkona hans, Meghan Markle, greindu frá ákvörðun sinni um að draga sig í hlé frá konungsfjölskyldunni í janúar. Þau ætla að verja meiri tíma í Kanada og freista þess að öðlast meira sjálfstæði.
Harry og Meghan munu formlega láta af störfum sem konungsfólk þann 31. mars. Þá ætla þau að hefja nýtt líf í Kanada með Archie syni sínum.
Á sunnudaginn ræddu Harry og Elísabet saman á fundi í Windsor-kastala sem stóð yfir í fjóra tíma. Samkvæmt heimildum The Sun vildi Elísabet koma því á framfæri við Harry að hann er velkominn aftur til starfa fyrir konungsfjölskylduna snúist honum einhvern tímann hugur.
„Drottningin hafði mikið að segja við Harry og þetta var rétti tíminn fyrir þau bæði til að tjá sig almennilega um málið,“ sagði heimildarmaður The Sun. Hann sagði að Elísabet væri uppgefin andlega vegna málsins en loks er farið að sjá fyrir endann á því.
Hann sagði að nú hefði Elísabet loksins fengið tækifæri til að setjast niður með Harry og ræða framtíð hans á óformlegum nótum.
Sjá einnig: Hverjir eru atvinnumöguleikar Harry og Meghan?