Sú ákvörðun að banna sölu fínkorna neftóbaks og munntóbaks var hluti af víðtækum tóbaksvarnarlögum sem samþykkt voru á Alþingi árið 1996.
Neysla munntóbaks var reyndar ekki sérlega útbreidd á þessum tíma og fáheyrt að íslenska neftóbakið væri notað undir vör, eða eins og segir í greinargerð frumvarpsins: „Tóbaksneysla er hér um bil úr sögunni og neysla neftóbaks sem framleitt er hér á landi hefur dregist mjög saman og er að mestu leyti bundin við roskna karlmenn.“
Hins vegar var bent á að tóbaksframleiðendur væru að markaðssetja nýjar tegundir munntóbaks sem blandað væri bragðefnum og ætlað að höfða til ungs fólks. Þessi tegund tóbaks væri ekki síður ávanabindandi en reyktóbak. ÁTVR flutti ekki inn slíkt tóbak en það gerði tóbaksbúðin Björk og dreifði til verslana og einstaklinga. „Þetta hefur leitt til staðbundinna neyslufaraldra meðal barna og unglinga og hafa borist uggvænlegar fréttir þar að lútandi. Við þessu þarf að bregðast af fullri einurð.“ Sem sagt, markmiðið með því að banna vöruna var að vernda ungviðið.
Þessi aðferð hefur mistekist illilega eins og tölurnar sýna. Könnun Gallup fyrir Landlæknisembættið sýnir að langstærsti hópurinn sem notar munntóbak eru karlmenn á aldrinum 18 til 34 ára. Þá færist munntóbaksnotkun meðal ungra kvenna í vöxt. Í langflestum tilvikum nota þessir hópar íslenskt neftóbak til verksins, vöru sem var „að mestu leyti bundin við roskna karlmenn“ þegar lögin voru samþykkt.