Icelandair mun hefja reglulegt flug til Kaupmannahafnar, Parísar, Amsterdam, Zürich, Berlínar, München, Frankfurt, Lundúna, Stokkhólms og Boston þann 15. júní.
Stefnt er að því að flugfélagið Icelandair hefji reglulegt flug til tíu áfangastaða þann 15. júní.
Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs hjá Icelandair, segir frá því í samtali við Morgunblaðið í dag að á föstudaginn fyrir rúmri viku hafi bókanir farið að berast. Síðan þá hefur bókunum fjölgað og hún segir greinilegt að það sé „kominn ferðahugur” í fólk.
Til að byrja með verður oftast flogið til Kaupmannahafnar, níu sinnum í viku nánar til tekið. Þá verður flogið til Parísar, Amsterdam, Zürich, Berlínar, München, Frankfurt, Lundúna, Stokkhólms og Boston þrisvar til fjórum sinnum í viku.
Haft er eftir Birnu að eftir að íslensk yfirvöld tilkynntu um 15 þúsund króna skimunargjald, það er gjaldið sem ferðamenn þurfa að greiða fyrir skimun við kórónaveirunni á Keflavíkurflugvelli, hafi margir ferðamenn afbókað ferðina til Íslands.
Þess má geta að skimunin verður gjaldfrjáls fyrstu tvær vikurnar eftir að hún hefst í næstu viku, þann 15. júní.