Guðni greinir frá björguninni á forsetasíðu sinni á Facebook og birtir þar jafnfram myndir sem teknar voru núna yfir jólin. Þær sýna hversu vel fálkanum virðist vegna í dag. „Fyrir ári var slösuðum fálka komið í skjól hér á Bessastöðum. Í ljós kom að fuglinn var kvenkyns og var gefið nafnið Kría. Hún braggaðist og náði frekari bata í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Í september gerðist það svo að þegar flytja átti Kríu milli búra flaug hún til fjalla. En þar með er öll sagan ekki sögð,“ segir Guðni og bætir við:
„Laust fyrir jól náði Þorfinnur Sigurgeirsson fuglaskoðari mynd af fálka á Garðskaga og merki á fæti hans. Nær öruggt er að þarna var Kría á ferð. Hér að neðan er mynd Árna Sæbergs af mér og Kríu um jólin í fyrra og svo myndir Þorfinns af þessum ágæta fálka um ári síðar.“