Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, lét stóran jarðskjálfta sem reið yfir Nýja Sjáland í gær lítið á sig fá. Skjálftinn reið yfir þegar hún var í viðtali í beinni útsendingu við The AM Show.
Upptök skjálftans voru um 30 kílómetra norðvestur af bænum Levin sem er skammt frá Wellington, höfuðborg Nýja Sjálands.
Skjálftinn mældist 5,8 stig og fannst vel í Wellington og í nágrenni en Ardern var stödd í þinghúsinu í höfuðborginni.
Ardern sagði að um ágætis skjálfta væri að ræða og hélt viðtalinu áfram um leið og umhverfi hennar hætti að nötra.
Myndbandið hefur farið sem eldur um sinu á samfélagsmiðlum síðan skjálftinn reið yfir og þykja viðbrögð forsætisráðherrans við skjálftanum merkileg.
Hér fyrir neðan má sjá klippu frá Sky News.