Lögreglumenn sem komu á vettvang í Ásmundarsal þar sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ásamt fjölda annara braut sóttvarnareglur, hafa verið áminntir af Eftirlitsnefnd með starfsháttum lögreglu.
Lögreglumennirnir komu á vettvang í Ásmundarsal, þar sem gleði undir formerkjun sölusýningar stóð sem hæst. Alltof margir gestir voru í salnum og leystu þeir upp gleðina. Þegar Dagbók lögreglu var send til fjölmiðla að morgni aðfangadags var gerð grein fyrir sóttvarnabrotinu og að á meðal gesta hafi veriuð háttvirtur ráðherra. Málið vakti gríðarlega athygli.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og flokkssystir Bjarna, hafði samband við lögreglustjóra og krafðist skýringa á dagbókarfærslunni,
Eftirlitsnefndin hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að háttsemi tveggja lögregluþjóna, á vettvangi í Ásmundarsal á Þorláksmessukvöld, geti talist ámælisverð og tilefni sé til að senda þann þátt málsins til meðferðar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í skýrslu sem Morgunblaðið birtir í dag.
Vísað er til þess að á upptökunum úr búkmyndavél lögregluþjónanna mátti heyra hluta samskiptanna milli lögregluþjónanna tveggja.
„Hvernig yrði fréttatilkynningin […] 40 manna einkasamkvæmi og
þjóðþekktir einstaklingar […] er það of mikið eða?“ Þá svaraði hinn lögregluþjónninn:
„Ekki fyrir mig, ég myndi lesa það.“ Og einnig: „Ég þekkti tvær stelpur þarna uppi og þær eru báðar sjálfstæðis […] svona […] framapotarar
eða þú veist.“
Nefndin telur að auk þess að refsa eða rannsaka frekar þátt lögreglumannanna beri einnig að endurskoða verklagsreglur er snúa að samskiptum lögreglu við fjölmiðla.
Fram kemur í skýrslunni að „ekkert tilefni hafi verið til upplýsingagjafar af þessu tagi“ þar sem sagt var frá aðkomu hæstvirts ráðherra að sóttvarnabrotinu.
Forráðamönnum Ásmundarsalar var gert sektarboð þar sem gestir báru ekki grímur öllum stundum. Þeir greiddu 200 þúsund krónur hvor og er málinu lokið.
Svo virðist sem þeir einu sem þurfa að gjalda fyrir sóttvarnabrotið í Ásmundarsal séu lögreglumenn sem komu á vettvang.