Næstum allir sóttkvíarbrjótar eru útlendingar sem starfa hér. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að ástæða þess vera hve illa landsmenn hafa tekið á móti þeim. Næstum allir sem hafa verið gripnir við að halda ekki sóttkví hafi verið innan þessa hóps. Kári segir að þetta sé upp til hópa duglegt sómafólk en Íslendingar hafi haldið því aðskildu, þannig að fólkið telur sig ekki vera hluta af samfélagi Íslendinga.
Kári ræddi þetta í Morgunútvarpinu á Rás 2. „Það sem stendur út af svolítið er að það hefur vaxið ákveðinn minnihlutahópur á Íslandi, sem er fólk sem er með búsetu á Íslandi, talar ekki tungumálið, lítur ekki svo á að það sé hluti af íslenskri þjóð, og það er sá hópur sem hefur átt erfitt með að halda þessar takmarkanir sem við höfum sett á herðar fólks. Og við getum ekki kennt neinum um það en okkur sjálfum. Vegna þess að við höfum ekki sinnt þessu fólki á undanförnum árum, við höfum ekki lagt nokkurn skapaðan hlut á okkur til þess að gera þessu fólki auðvelt að finnast eins og þau séu hluti af liðinu.“
Kári segir að það sé ekki hægt að kenna þeim um þetta, vandinn sé okkar megin. „Ég minntist á þetta einhvers staðar og var barinn í klessu fyrir vikið. Það eina sem ég er að benda á að þetta er verkefni sem við verðum að sinna. Þetta er geysigott fólk sem hefur lagt mikið af mörkum til íslensks samfélags. Flestallar byggingar sem hafa verið reistar á Íslandi á síðustu tíu árum hafa verið reistar af þessu fólki. Það hefur staðið sig feikilega vel, en okkur hefur ekki tekist að gera þetta fólk að fullgildum meðlimum í íslensku samfélagi, og það er okkur að kenna, ekki þeim.“