Nýjasta mynd Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð, hefur fengið glimrandi dóma á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Gagnrýnandi The Guardian gefur henni þrjár stjörnur og segir að Benedikt sé með næmt auga fyrir hugmyndum, senum og myndmáli. Þá lofar gagnrýnandi leikkonuna Halldóru Geirharðsdóttur í aðalhlutverkinu og segir frammistöðu hennar bæði „aðlaðandi og geðþekka.“
Gagnrýnandi Variety tekur í sama streng og segir að Halldóra, í hlutverki aðgerðarsinnans Höllu, sé stórkostleg og að hún gefi myndinni vissa vigt. Í myndinni leikur Halldóra kórstjórann Höllu sem lýsir yfir stríði á hendur allri stóriðju á Íslandi. Þá lofar gagnrýnandi einnig Benedikt í leikstjórasætinu.
„Er eitthvað sjaldgæfara en gáfuleg mynd sem lætur manni líða vel sem veit hvernig á að tækla brýn alheimsvandamál með húmor að vopni en einnig mikilli réttlætiskennd? Ekki leita lengra en að Konu í stríði, yndislega íslenskri (þar sem mig vantar betra lýsingarorð) mynd eftir Benedikt Erlingsson, næstum því fullkomið framhald af Hross í oss.“
Hann hrósar líka kvikmyndatökustjóranum Bergsteini Björgúlfssyni og segir hann meistara í að fanga hljóðláta fegurð íslensks landslags. Sama segir gagnrýnandi The Hollywood Reporter og bætir við að það kæmi ekki á óvart ef myndin yrði seld til Evrópulandanna, en einnig um heim allan, sökum þess hve mikilvægt viðfangsefnið er.
Kona fer í stríð hefur hlotið tvenn verðlaun í Cannes, annars vegar SADC-verðlaunin sem samtök handritshöfunda og tónskálda veita á Critic’s Week, hliðardagskrá kvikmyndahátíðarinnar og hins vegar Gyllta lestarteininn sem eru veitt af kvikmyndaunnendum úr hópi lestarstarfsmanna sem sækja Critic’s Week.