Sjö aðilar gistu í fangaklefa lögreglu eftir nóttina en samkvæmt dagbók lögreglu var nokkuð um ölvun og slagsmál í miðbænum. Áhyggjufullur nágranni hringdi á lögreglu og tilkynnti um eftirlitslaust unglingasamkvæmi. Þegar lögregla kom á vettvang var stór hópur ungmenna utandyra og tóku þau á rás um leið og þau komu auga á lögreglubifreiðina. Húsráðandi kom af fjöllum og sagðist ekki hafa boðið svona mörgum og bætti við að hún hafi ekki þekkt til gestanna. Þá bárust lögregl tvær tilkynningar um umferðaróhöpp. Farþegi hlaut minniháttar meiðsli í öðru slysinu en ekki er vitað um meiðsli í því seinna þar sem það átti sér stað nú undir morgun.