Fyrirsætan Naomi Campbell og tónlistarmaðurinn Liam Payne eru sögð vera nýtt par.
Breskir fjölmiðlar keppast nú við að segja fréttir af því að fyrirsætan Naomi Campbell og tónlistarmaðurinn Liam Payne eigi í ástarsambandi.
Parið hefur ekki staðfest opinberlega að þau séu saman en þau hafa undanfarið verið óhrædd við að birta skilaboð til hvors annars á samfélagsmiðlum. Þá hafa þau einnig sést nokkrum sinnum saman opinberlega á því sem virðast vera rómantísk stefnumót.
Fregnir herma að leiðir þeirra hafi legið saman snemma á síðasta ári en þá voru þau bæði í sambandi.
En það var í júní 2018 sem Payne staðfesti að hann og barnsmóðir hans, Cheryl Tweedy, hefðu slitið sambandi sínu. Um svipað leyti mun Campbell hafa hætt með kærasta sínum, tónlistarmanninum Skepta.
Í janúar á þessu ári fóru Campbell og Payne þá að sjást opinberlega saman, fyrst á tónleikum með nígeríska tónlistarmanninum Davido.
Síðan þá hafa þau verið virk á samfélagsmiðlum og birt nokkur rómantísk skilaboð til hvors annars.
Þess má geta að Campbell er 48 ára og hefur starfað sem fyrirsæta frá 15 ára aldri. Liam Payne er 25 ára og þekktastur fyrir hlutverk sitt í hljómsveitinni One Direction.