Að kvöldi 9. nóvember 2017 beit hin ástralska Nara Walker tungu fransks eiginmanns síns í sundur. Þau höfðu verið búsett hér á landi í eitt ár, þar sem maður hennar hafði þáð starf, þegar umrætt atvik átti sér stað. Hún var dæmd til 12 mánaða fangelsisdóms í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir líkamsárás og stórfellt ofbeldisbrot í nánu sambandi en níu mánuðir voru skilorðsbundnir.
Fórnarlamb ofbeldis
Í kjölfarið fór af stað mikil umræða í þjóðfélaginu um réttmæti dómsins en Nara hélt því fram statt og stöðugt að hún hefði margoft verið fórnarlamb andlegs, líkamlegs og kynferðislegt ofbeldis af hálfu eiginmanns síns. Hún kom fram í fjölda blaðaviðtala og sagði ofbeldið hafa hafist frá því fljótlega eftir að samband þeirra hófst
Nara kynntist manni sínum þegar hún var í háskólanámi í Ástralíu og sagði hann hafa spilað með sig frá upphafi. Hún taldi hann hafa skynjað að hún kom úr fjölskyldu sem lituð var ofbeldi og því útsettari fyrir hegðun hans en ella. „Hann er franskur, hávaxinn, hraustur og sex árum eldri en ég og í dag líður mér eins og ég hafi verið veidd. Hann kunni að spila á veikleika mína og bakgrunn minn og til þess að gera langa sögu stutta endaði það með því að við byrjuðum saman og allt frá upphafi var til staðar þetta sálræna ofbeldi þar sem það var gefið og tekið á víxl og allt snerist um að ná fullri stjórn á einstaklingnum,“ sagði hún síðar í viðtali við Mannlíf.
Föst í vítahring einangrunar
Hún sagðist hafa sogast inn í ofbeldissamband án þess að gera sér grein fyrir því og stigmagnaðist ofbeldið stöðugt. Hún sagðist hafa verið föst í vítahring einangrunar og ofbeldis enda hafi maður hennar kerfisbundið rofið tengslanet hennar.
Nara sagði mann sinn alltaf gætt sig á að berja hana í brjóst- og kviðarhol svo áverkarnir væru síður sýnilegir.
Hún sagði ofbeldið hafa haldið áfram á Íslandi og lýsti atburðum kvöldsins sem svo að umrætt kvöld hafi þau hjón verið úti að skemmta sér ásamt íslenskri vinkonu þeirra hjóna og bandarískum ferðamanni sem þau hafi vingast við. Nara telur umrædda konu hafa verið ástkonu eiginmanns síns og þau hafi bæði verið í fíkniefnanotkun. Eftir útiveruna á skemmtanalífinu héldu þau heim til þeirra þar sem eiginmaðurinn og íslenska konan hófu ástaratlot og sagðist Nara hafa kysst Bandaríkjamanninn til að jafna sakirnar. Í kjölfarið urðu átök sem urðu til þess að Bandaríkjamaðurinn hélt á brott eftir að eiginmaðurinn henti honum niður stiga.
Fimmtán tíma í fangaklefa
Í kjölfar átakanna vildi Nara yfirgefa íbúðina en hamlaði eiginmaður hennar því, kýldi hana svo ítrekað að hún óttaðist um líf sitt og reyndi að kyssa hana. Hún sagðist hafa orðið stjörf af hræðslu og bitið í tungu hans í ótta sínum. Hún taldi ennfremur að eiginmaður hennar hefði byrlað henni eiturlyf umrætt kvöld sem hafi orðið til þess að hún hafi ekki fundið fyrir tungu hans.
Lögregla var kvödd til og ásakaði eiginmaður Nöru hana strax um líkamsárás sem hún segist hafa mótmælt þar sem hún hefði verið þolandinn. Íslenska konan studdi framburð eiginmannsins.
Fjöldi manns mótmælti
Nara var járnuð, handtekinn, og sat í 15 tíma í fangaklefa áður en hún var yfirheyrð. Hún sagðist allanb tímann sem hún sat í gæsluvarðhaldi hafa verið viss um að hún yrði sýknuð þar sem hún hefði verið fórnarlamb langvarandi ofbeldis.
Svo fór þó ekki og var Nara dæmd í 12 mánaða fangelsi sem Landsréttur þyngdi í 18 mánuði, þar af 15 mánuði skilorðsbundna. Undirskriftarlisti var sendur til Alþingis til styrktar Nöru og söfnuðust 43 þúsund undirskriftir.
Nara Walker kærði síðar íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu.
Hún er enn búsett á Íslandi og starfar sem listamaður.