Ofurfyrirsætan Tyra Banks og móðir hennar hafa skráð niður endurminningar fyrirsætunnar í bókinni Perfect is Boring sem kemur út 3. apríl næstkomandi.
„Náttúruleg fegurð er ósanngjörn. Mér líður illa þegar konur sem eru náttúrulega fallegar dæma þá sem breyta einhverju við útlit sitt,” segir Tyra í viðtali við tímaritið People til að kynna bókina.
Í fyrrnefndri bók segist Tyra hafa farið í nefaðgerð snemma á ferlinum.
„Ég var með bein í nefinu sem voru að vaxa og mig klæjaði. Ég gat andað eðlilega en ég fór í lýtaaðgerð. Ég viðurkenni það! Gervi hár og ég lét laga nefið. Mér finnst ég þurfa að segja sannleikann,” segir Tyra.
Þá segist hún einnig ekki vera hrifin af því þegar því er hampað að nota ekki farða.
„Við setjum mikla áherslu á það. Ég þurfti farða sem fyrirsæta. Mér finnst ekkert að því. Það jafnaði leikinn fyrir mig. Gisele, þú þarft ekki á farða að halda? Ég þarf á honum að halda! Og við erum báðar fyrirsætur fyrir Victoria’s Secret.”
Tyra segist styðja þá sem láta breyta útliti sínu á einhvern hátt.
„Ekki hafa áhyggjur ef þér líkar við sjálfa/n þig eins og þú ert frá náttúrunnar hendi. En ef þú ert óörugg/ur um eitthvað… Ég er með töfratösku af fegrunarráðum sem gera þig að þeirri manneskju sem þú vilt vera. Tímabundið eða til frambúðar, ég dæmi það ekki.”