Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Nekt, eldi, sirkusdýrum og konfetti gæti brugðið fyrir á sviðinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sex lög keppa í fyrra undankeppni Söngvakeppninnar þann 10. febrúar næstkomandi í Háskólabíó og freista þess að komast í úrslitakeppnina þann 3. mars, og jafnvel alla leið í aðalkeppni Eurovision í Lissabon í maí.

Við ákváðum að kynnast flytjendunum sem stíga á stokk þetta fyrra undanúrslitakvöld og spyrja þá spjörunum úr áður en Eurovision-tryllingurinn heltekur þá alveg.

Fékk martraðir um finnsku sveitina Lordie

Ari Ólafsson flytur lagið Heim, sem heitir á ensku Our Choice, og er samið af Þórunni Ernu Clausen. Hann hefur alltaf verið mikill aðdáandi Eurovision og finnst að íslenska þjóðin eigi að fylgja hjartanu þegar hún kýs sín eftirlætislög.

Af hverju Eurovision?

Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Eurovision og ég fékk flott tækifæri með lag sem mér þótti afskaplega fallegt, svo ég kýldi á það!

- Auglýsing -

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?

Lagið er um þennan valmöguleika sem við höfum öll; að hjálpa til og að borga áfram með jákvæðni og samúð, i stað þess að dæma, gagnrýna og meiða.

Hvernig var tilfinningin þegar þú komst að því að lagið væri komið í undanúrslit?

Mjög góð. Ég varð mjög spenntur mjög hratt þegar ég fattaði: Já… djók! Ég er að fara að keppa!

- Auglýsing -

Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?

Hard Rock Hallelujah með Lordie. Ég man það þvi ég var svo sjúklega hræddur við þá að ég fékk martraðir um þá.

Ari varð mjög spenntur þegar hann fattaði að hann væri að fara að keppa í Eurovision

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

Fairytale með Alexander Rybak. Það lag var bara svo sjúklega fallegt og flott á sviðinu. Ég mun aldrei gleyma þvi atriði.

Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa þig?

Mér finnst að fólk eiga alltaf að fylgja hjartanu sínu og ef þeim finnst lagið vera fallegt og ég syngja það vel þá ætti það að kjósa mig.

Er líf eftir Eurovision?

Já að sjálfsögðu. Lífið heldur alltaf áfram.

Hrópuðu af gleði í hópsímtali

Fókus hópurinn, sem skipar þau Sigurjón Örn Böðvarsson, Rósu Björg Ómarsdóttur, Hrafnhildi Ýr Víglundsdóttur, Karitas Hörpu Davíðsdóttur og Eirík Þór Hafdal, flytur taktfasta popplagið Aldrei gefast upp, eða Battleline. Þrettán ár eru á milli elsta og yngsta flytjandans og lofa litríku atriði á stóra sviðinu.

Af hverju Eurovision?

Langþráður draumur flestra í hópnum og einn stærsti stökkpallur tónlistarfólks á Íslandi og þótt víðar væri leitað

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?

Fyrir okkur er lagið um að fylgja draumum sínum og ástríðum og gefast ekki upp á þeim og sjálfum sér, en lagið má túlka á fleiri en einn veg.

Hvernig var tilfinningin þegar þið komust að því að lagið væri komið í undanúrslit?

Ofboðslega glöð og spennt, við hringdumst á og skiptumst á að hrópa af gleði og enduðum í einu stóru hópsímtali þar sem við vorum stödd á mismunandi stöðum í heiminum.

Fókus hópurinn flytur lag sem fjallar um að gefast aldrei upp.

Hvert er fyrsta lagið sem þið munið eftir í Eurovision?

Þar sem það eru 13 ár milli yngsta og elsta í hópnum eru minningar okkar mismunandi, allt frá Söndru Kim til Selmu Björns. Sandra var í eftirminnilegum bleikum jakkafötum, eins yngsti keppandi sem hafði keppt og Selma var bara svo gaddem gordjöss.

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

Við fórum strax að rífast um það og því ómögulegt að segja um hvert uppáhaldslag hópsins er, en við erum sammála um að þau eru fáránlega mörg.

Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi ykkar í beinni útsendingu?

Já, það gæti brugðið fyrir nekt, eld, sirkusdýrum og/eða konfetti. Mikilvægt að horfa! Rósa verður einnig í einangrunarplasti þar sem í fyrra gleypti hún konfetti og allar líkur á að hún slasi sig í beinni.

Hvernig eigið þið eftir að bregðast við ef þið vinnið?

Það er ómögulegt að segja, líkur eru á því að við myndum mennskan pýramída og Sigurjón fari úr fötunum en að öllu gríni slepptu munum við, alveg ekki spurning, brjótast út í einhverri óstjórnlegri hysterískri gleði.

En ef þið tapið?

Er hægt að tapa? Sigurinn var að komast inn í keppnina, allt annað er bónus.

Breytir tárum í stjörnur

Söngkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir er Íslendingum kunn, en hún syngur lagið Ég mun skína, eða Shine, sem hún samdi ásamt Agnari Friðbertssyni. Þórunn varð lífshættulega veik þegar hún fæddi dóttur sína fyrir nokkrum árum, en hún finnur enn fyrir slæmum áhrifum veikindanna. Texti lagsins fæddist eitt kvöldið þegar henni leið illa og táknar hann von um betri líðan.

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?

Ég samdi textann bæði á ensku og íslensku um persónulega reynslu og viljann og vonina að komast upp úr erfiðleikum. Ég varð lífshættulega lasin þegar ég fæddi dóttur mína fyrir nokkrum árum og ónæmiskerfið mitt hefur ekki alveg hlýtt mér síðan. Ég hef verið lasin og þreyttari en áður og það dregur mig oft niður, en eitt kvöldið kom þessi texti út frá von um betri líðan. Ég notaði tunglið og stjörnurnar sem einskonar myndlíkinu fyrir þessar tilfinningar. Að breyta tárum í stjörnur og að skína þrátt fyrir allt. Við dílum öll við allskonar rugl en vonin og gleðin má ekki slökkna.

Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?

Nei eða Já? með Stjórninni. Ég lifði fyrir Siggu og Grétar sem barn – þau voru langflottustu.

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

Euphoria, af því að það er bara tryllt lag.

Þórunn Antonía er mikill aðdáandi Stjórnarinnar.

Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi þínum í beinni útsendingu?

Já svo sannarlega. Ég segi ekki meir.

Verður einhver ríkur á að taka þátt í Eurovision?

Það held ég að sé ansi hæpið en það varpar hinsvegar ljósi á listamenn og það eykur líkur á giggum og tækifærum til að græða peninga. Peningar eru líka yfirleitt það síðasta sem listamenn hugsa um en það fyrsta sem þá vantar. Allir halda að listamenn eigi peninga, sérstaklega ef þeir eru þekktir, og oft er verið að biðja fólk um að koma ókeypis fram því það er svo “góð kynning”. Þetta er vinna eins og öll önnur en svo snýst ekki allt um peninga. Ef maður fer saddur að sofa og á í sig og á er það flott. Mér finnst til dæmis tími með dóttur minni dýrmætari en allir peningar.

Er líf eftir Eurovision?

Það ætla ég rétt að vona, nema ég drepist á sviðinu..sem væri nú ansi dívulegur dauðdagi.

Pössum okkur að festast ekki í snjallskjánum

Nýliðarnir Þórir Geir Guðmundsson og Gyða Margrét Kristjánsdóttir syngja dúettinn Brosa, eða With You, sem samið er af Fannari Frey Magnússyni og Guðmundi Þórarinssyni, sem eiga reyndar líka lag í seinni undankeppninni. Sterkasta Eurovision-minning þeirra beggja er af hinni einu, sönnu Silvíu Nótt.

Af hverju Eurovision?

Af hverju ekki?

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?

Okkur finnst lagið tilheyra okkar kynslóð svo vel. Það er að segja sérstaklega íslenski textinn þar sem hann fjallar um þær hugsanir sem fara í gegnum kollinn á manni þegar maður skoðar samfélagsmiðla nútímans, þar sem fólki hættir til að bera sig saman við aðra. Og sá boðskapur að við megum ekki gleyma því að hugsa um allt það sem er í kringum okkur og fólkið sem er í kringum okkur; passa sig að festast ekki í skjánum.

Hvert er fyrsta lagið sem þið munið eftir í Eurovision?

Við erum sammála um það að fyrsta og sterkasta minningin sé Silvía Nótt – Til hamingju Ísland. Það er mjög minnisstætt vegna þess hversu öðruvísi það var. Við vorum líka á þeim aldri þar sem maður tók öskudaginn á þetta. Öll umfjöllunin í kringum lagið, atriðið sjálft og karakterinn Silvía Nótt.

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

Sko, uppáhaldslagið hans Þóris er Open Your Heart – Birgitta eða Gleðibankinn. Uppáhaldslag Gyðu er hinsvegar Verka Serduchka – Dancing Lasha Tumbai.

Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi ykkar í beinni útsendingu?

Já, ætli atriðið muni ekki koma örlítið á óvart. Kannski ekki, en það verður að minnsta kosti alveg geggjað!

Þórir og Gyða lofa geggjuðu atriði.

Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa ykkur?

Ef fólk fílar lagið, ekki hika við að kjósa það. Við myndum kunna sjúkt mikið að meta það! Það er ómetanlegur stuðningur. En við ætlum fyrst og fremst að hafa gaman að þessu og vonum að allir sem horfa munu gera það líka. Við segjum: Ef þið eruð brosandi í lok lags = kjósið’a.

Verður einhver ríkur á að taka þátt í Eurovision?

Ríkur af nýjum vinum, nýrri reynslu og geggjuðum minningum já. Moldríkur.

Er líf eftir Eurovision?

Hvurslags spurning, auðvitað! Heillangt og geggjað líf framundan og í þokkabót er maður reynslunni ríkari.

Grét í fyrsta sinn yfir Eurovision í fyrra

Sólborg Guðbrandsdóttir syngur lagið Ég og Þú, eða Think It Through, með Tómasi Helga Wehmeier. Þau sömu lagið og enska textann ásamt Rob Price en Davíð Guðbrandsson á heiðurinn af íslenska textanum. Hún segist ganga sátt frá borði, sama hvort þau komist áfram eður ei.

Af hverju Eurovision?

Eurovision er mikil áskorun og við Tómas höfum gaman af þeim. Við ákváðum bara að kýla á þetta og sendum lag í keppnina án þess að búast endilega við því að komast í gegn. Söngvakeppnin hérna heima er ótrúlega fagleg, hún nýtur mikilla vinsælda og er bara ógeðslega skemmtileg. Við erum mjög þakklát fyrir það að hafa fengið þetta tækifæri.

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?

Þetta lag er ólíkt þeirri tónlist sem við Tómas erum vön að syngja. Við sömdum það ásamt Rob, vini okkar, í London í ágúst síðastliðnum og ég held að þetta lag muni alltaf minna okkur á þá ævintýraferð. Textinn í laginu minnir mann á það að þetta verði allt saman allt í lagi á endanum, sama hvað. „Trúum að við verðum, hvað sem verður, ég og þú.“

Sólborg og Tómas hafa gaman að áskorunum.

Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?

Ætli það sé ekki „All out of luck“ með Selmu Björns. Það er einhvern veginn alltaf fyrsta lagið sem ég hugsa um þegar ég heyri minnst á Eurovision. Ég var líka svo heppin að fá að syngja það í annarri undankeppninni árið 2013 með hljómsveit sem ég var í þá, White Signal. Það er eitthvað sem ég gleymi seint.

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

„Amar Pelos Dois“ með Salvador Sobral sem sigraði í fyrra, það er eina skiptið sem ég hef grátið yfir Eurovision. Mitt uppáhalds íslenska lag er „Ég á líf“.

Hvernig eigið þið eftir að bregðast við ef þið vinnið?

Ég veit það ekki, ætli við yrðum ekki lengi að átta okkur á því. Við höfum þó reynt að taka eitt skref í einu frá því þetta byrjaði allt saman. Við ætlum bara að njóta þess að syngja fyrir þjóðina í undanúrslitunum og hafa gaman, ef við komumst svo áfram í úrslitin er það bara algjör bónus.

En ef þið tapið?

Þá munum við ganga sátt frá borði. Þetta ferli er búið að vera algjört ævintýri og við erum búin að kynnast helling af dásamlegu fólki, maður getur ekki kvartað yfir því.

Er líf eftir Eurovision?

Eftir Eurovision er lífið rétt að byrja.

Eiga erindi í Eurovision

Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Vigdís Gunnarsdóttir skipa sveitina Heimilistóna sem hefur verið starfrækt um árabil. Þær segja lagið fjalla um það hversdagslega, sem er þó jafnframt afar mikilvægt, nefnilega vináttuna í öllum sínum myndum.

Af hverju Eurovision?

Eurovision er eins og hannað fyrir Heimilistóna. Við elskum litina og gleðina kringum þessa keppni og síðast en ekki síst hvað hún höfðar til breiðs aldurs.

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?

Kveikir í gleðinni og fjallar um það hversdagslega en þó mikilvæga; vináttuna með öllum sínum kostum og göllum

Hvernig var tilfinningin þegar þið komust að því að lagið væri komið í undanúrslitk?

Eftirvænting og mikil gleði. Sú okkar sem fékk símtalið brunaði af stað á bílnum og færði fréttirnar.

Má búast við að eitthvað komi á óvart í ykkar flutningi?

Tjaaa, það hefur ekki verið ákveðið, ekki enn sem komið er. Hver veit?

Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa ykkur?

Ef fólk kann að meta lagið og kýs okkur út þá lofum við að standa okkur með sóma og gera okkar besta. Við eigum erindi

En ef þið tapið?

Þá er bara að brosa gegnum tárin og svo höldum við áfram okkar góða samstarfi

Heimilistónar elska Eurovision.

Verður einhver ríkur af að taka þátt í Eurovision?

Kannski ekki í veraldlegum skilningi en þetta gefur heilmikla gleði

Er líf eftir Eurovision?

Já, það er líf eftir Eurovision og af nægu að taka í vinnu og leik hjá okkur Heimilistónum.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Myndir / Íris Dögg Einarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -