Streymisveitan Netflix hefur ákveðið að fjarlægja þriggja mínútna langt atriði úr sjónvarpsþáttunum 13 Reasons Why þar sem ein af aðalpersónum þeirra sést svipta sig lífi.
Atriðið er úr fyrstu seríu þáttanna sem tekin var til sýninga fyrir tveimur árum. Deilt hefur verið um atriðið allar götur síðan og hafa gagnrýnendur sagt að það sýni sjálfsvíg í rómantísku ljósi. Það er þvert á það sem framleiðandi þáttanna, Brian Yorkey, ætlaði sér. Sagði hann á Twitter að atriðið hafi átt að sýna ljótleika og sársauka á svo grafískan hátt að enginn ætti að vilja leika það eftir.
Netflix segist byggja ákvörðun sína á ráðleggingum heilbrigðisstarfsfólks og er hún tekin í samráði við Yorkey sem segist hafa endurskoðað hug sinn eftir að hafa hlustað á gagnrýni. „Ekkert atriði er mikilvægara en þættirnir sjálfir og þau skilaboð sem þeir hafa fram að færa, sem eru þau að við verðum að hugsa betur um hvert annað. Við teljum að þessar breytingar séu flestum til heilla á meðan við tökum sérstakt tillit til ungra áhorfenda sem standa höllum fæti,“ segir Yorkey.
Þriðja sería 13 Reasons Why fer í loftið síðar á þessu ári.
A statement from our show creator Brian Yorkey. pic.twitter.com/J6XiD9LVkU
— 13 Reasons Why (@13ReasonsWhy) July 16, 2019