Lögleiðing neyslu kannabisefna í Kanada hefur hleypt nýju lífi í umræðuna um þessi mál hérlendis. Að venju sýnist sitt hverjum, þeir sem eru andvígir halda á lofti hættunni sem kannabisneysla veldur ungu fólki og þeir sem eru meðmæltir telja bann við neyslu kannabisefna skerðingu á einstaklingsfrelsi, enda sé um tiltölulega hættulítið efni að ræða.
Mannlíf fékk tvo einstaklinga til að leggja sín lóð á vogarskálarnar og rökstyðja skoðanir sínar á því hvort lögleiða eigi kannabis eða ekki. Guðrún Björg Ágústsdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi, er ein þeirra. Hún er með yfir 30 ára starfsreynslu, síðustu sjö ár sem ráðgjafi hjá Vímulausri æsku – Foreldrahúsi. Hún telur að neysla muni aukast við lögleiðingu.
Sjá einnig: Spurning um sjálfsákvörðunarrétt
Hvaða rök mæla gegn lögleiðingu kannabis? „Með lögleiðingu er verið að segja unga fólkinu okkar að kannabis sé ekki svo hættulegt efni, enda hvernig gæti það verið það, ef það væri löglegt? Eins og við flest vitum eru það unglingar sem eru stærsti hópurinn sem notar vímuefni en það er einmitt sá hópur sem er viðkvæmastur fyrir áhrifum vímuefnanna.“
Hver er reynsla annarra þjóða af lögleiðingu?„Það hefur nú þegar sýnt sig í Colorado að 85 prósent fleiri ungmenni nota kannabis þar miðað við hin ríkin í Bandaríkjunum. Eins hefur bílslysum sem rakin eru til kannabisneyslu fjölgað um 151 prósent. Einnig blómstrar svarti markaðurinn, andstætt því sem almennt er talið.“
Hverju myndi lögleiðing breyta fyrir þjóðfélagið? „Mín skoðun er sú að það myndi breyta mörgu í þjóðfélaginu ef kannabis yrði lögleitt. Það eru mörg gróðatækifæri í framleiðslu og sölu á kannabis. Kannabis er hægt að setja í sælgæti, mat, drykk, rafrettur og fleira. Áhrif kannabis vara mun lengur en af áfengi. Manneskja sem notar kannabis til dæmis tvisvar í viku mun mælast með THC í þvagi alla daga vikunnar. Þá varpa ég fram spurningunni: Hvaða áhrif mun það hafa á umferðina og slys af völdum áhrifa undir stýri? Með aukinni neyslu þarf að auka meðferðarúrræði fyrir þá sem ánetjast efninu. Svo virðist sem reynsla þeirra sem hafa lögleitt kannabis sé sú að neysla aukist. Það er nú þegar aukning á neyslu kannabis hjá unglingum hér á landi og það er vitað að því yngri sem unglingar byrja neyslu því meiri skaði verður við notkun og meiri líkur á að unglingurinn ánetjist efninu. Með lögleiðingu yrði þá líka að stórauka meðferðarúrræði.“
Áhrif kannabis vara mun lengur en af áfengi. Manneskja sem notar kannabis til dæmis tvisvar í viku mun mælast með THC í þvagi alla daga vikunnar.
Hvers vegna ert þú persónulega andvíg lögleiðingu kannabis? „Ég hef séð hvernig kannabisneysla hefur haft áhrif á fólk, sérstaklega ungt fólk. Ein helstu rök unglinga sem eru að eyðileggja líf sitt vegna neyslu kannabis eru: Þetta er ekkert hættulegt, það er verið að lögleiða þetta. Unglingar horfa ekki á að það sé aldurstakmark fyrir kaupum á kannabis þar sem það er löglegt. Þau eru ung og þau gera það sem við fullorðna fólkið höfum fyrir þeim. Ef við lögleiðum kannabis verður það líka fyrir 14 ára börn.“
Myndir / Hallur Karlsson