Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-4.3 C
Reykjavik

Neyslusamfélagið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Eva H. Baldursdóttir

Samfélagið okkar er neyslusamfélag, staðalmynd nútíma vestræns samfélags. Mannskepnan er flókið dýr með góðar gáfur. Það er samt auðvelt að breyta okkur í sofandi vélmenni þegar kemur að hinum ýmsu innkaupum, hluti sem við teljum okkur „þurfa“. Á 21. öldinni hafa tæknibreytingar líkt og auðveld netverslun og stöðugar auglýsingar gert okkur það erfiðara fyrir að verja okkur fyrir ásælni markaðsins í seðlaveskið. Líklega erum við ómeðvituð um hversu mikil áhrif auglýsingarnar hafa. Þá erum við jafnframt hjarðdýr og staða fólks er iðulega bundin við sem það á. Fólk ber sig saman við aðra hvort sem það eru húsgögn, tegund af bíl, skíðum, hjóli, nýjasti hönnunarapinn, hvar það borðar og svo framvegis. En sannleikurinn er sá að á endingu eru þetta bara hlutir og næring.

Hversu oft hugsar þú um hvað þú raunverulega þarft í innkaupum þegar þú ert að versla – hversu mikið stýrir það innkaupunum? Hversu oft borðar þú miklu meira en líkaminn þarf? Heiðarlegt mat á stöðunni er að meira og minna flest sem við gerum og neytum er ofaukið. Hlutirnir sem við kaupum eru ekki hlutir sem við raunverulega þurfum. Við kaupum það af því að við veljum það. Fatnaður, raftæki, húsgögn, snyrtivörur,  matur, ferðalög o.s.frv. Matarsóun er til að mynda um 40% af framleiddri matvöru í vestræna heiminum. Það þýðir að 40% af orkunni sem fer í að búa til þann mat, jarðveg og vinnu er sóað. Það er hreint sorgleg staðreynd. Í ofanálag er það ríkasta 20% sem neytir mest í heiminum.

 „Hvernig væri að við gæfum okkur tíma til að virða alla vinnuna, framlög fólks og jarðar, til að koma matnum sem við innbyrðum eða fötin sem klæðir okkur á þessar hillur?“

Ofneysla heimsins er ennfremur beintengd loftslagsbreytingum. Því hefur verið fleygt að sjúkdómurinn er neyslan, einkennin eru  loftslagsbreytingar.  Samgöngur og millilandaflutningar. Iðnaðurinn sjálfur. Allt krefst þetta auðlinda í framleiðslu sem eru fengar frá jörðinni. Þá geyma föt talsvert af plastögnum, mikið fer í pakkningar og svo framvegis.  Ofan á umhverfisáhrifin koma svo augljós neikvæð félagsleg áhrif eins og t.d. að föt og hlutir hvers konar eru framleiddir í þriðja heims ríkjum þar sem vinnuafl er ódýrt og misneyting auðlinda algeng.

Við erum aftengd

Við erum aftengd. Við vitum ekki lengur hvaðan hlutir raunverulega koma eða hvert er framleiðsluferlið. Börnin eru flest löngu hætt að fara í „sveitina“ eða að kíkja í verksmiðjur í Kína. Fötin og dótið er bara keypt í Kringlunni. Kjúklingur innpakkaður í plast og frauðplast í hillunni í Bónus. Við viljum ekki sjá né heyra. Fáfræði er sæla, eins og einhver sagði. En við erum fullorðin og höfum ekki afsökun né réttlætingar. Réttlætingarnar eru t.d.:  „allir aðrir gera það“, „samfélagið er svona uppbyggt“ og sú besta er: „ég hef ekki tíma“. Hvernig væri að við gæfum okkur tíma til að virða alla vinnuna, framlög fólks og jarðar, til að koma matnum sem við innbyrðum eða fötin sem klæðir okkur á þessar hillur? Myndi það draga úr neyslunni?

- Auglýsing -

Mörg okkar vita þetta. Hægt erum við að gera einhverjar þægilegri breytingar og spyrja gagnrýnna spurninga. Staðan í umhverfismálum hefur óumflýjanlega leitt það af sér að við getum ekki snúið blinda auganu lengur. Lengi höfum við gert það í tengslum við ódýrar vörur framleiddar af fólki sem fær varla lágmarkslaun í verksmiðju við fáránlegar aðstæður í þriðja heims ríkjum. Á heimsvísu er neysla hins vegar að aukast, samfara því að lífsgæði eru að batna í fjölmennum samfélögum eins og í Kína og Afríku.

Að breyta neyslumynstrinu, eða öllum heldur að brjótast út úr því, er ekki auðvelt þegar samfélagið og kerfið sem við lifum við vinnur ekki með okkur. Nú er t.d. ekki hægt að fara í gegnum samfélagsmiðla án þess að fá senda auglýsingu sem er sérstaklega sniðin að því sem þú hefur verið að skoða á netinu, sem er fengið með algórytmum og gervigreind. Neysluhungrið er forritað í okkur af markaðssamfélaginu hvort sem okkur líkar betur eða verr einkum með auglýsingum og markaðssetningu. Við erum í eðli okkar áhrifagjörn og bregðumst við því sem menningin setur fyrir framan okkur. Það er í sjálfu sér samt ekki afsökun. Með því að þjálfa sig í aukinni meðvitund er hægt að sjá þetta betur og betur og átta sig á hversu mikil áhrif þetta hefur á okkar daglega líf. Neyslusamfélagið sem við búum í er líka allt tengt öðrum þáttum– hér má nefna fíknir hvers konar. Að kaupa eitthvað gefur okkur skyndiánægju og kann að fylla tóm innra með okkur. Fólk kann að vera háð tilteknum hlutum. Í því ástandi er maðurinn ekki frjáls.

Með gleraugum sannleikans sjáum við að lifnaðarhættir okkar samræmast ekki sjálfbærum lífstíl. Því sem jörðin og við þurfum á að halda. Við þurfum að slaka á hraðanum og neyslunni. Við vitum þetta flest nú orðið innst inni þó sumir vilji vera í afneitun.  Breytingar þurfa í eðli sínu ekki að vera flóknar þó þær muni óumflýjanlega leiða til breytinga á samfélagsmynstrinu. Við gætum byrjað á því að vera með merkingar á öllum fötum, hvaðan föt koma. Við gætum bannað allt plast í pakkningum á öllum vörum. Við gætum aukið við skiptimarkaði og verslanir með notaða hluti. Við getum verið með umbúðafrjálsar matvöruverslanir. Við getum sett umhverfisskatta á vörur sem hafa losað mikið  af gróðurhúsalofttegundum í framleiðsluferlinu og  svo framvegis. Fjárhagslegar ívilnanir á umhverfisvænar vörur. Deilisamfélagið stóraukið með almenningssamgöngum og svona má lengi telja. Allt krefst þetta bara ímyndundarafls. Spurningin er: Hvenær ætlum við að taka ábyrgð og raunverulega krefjast samfélagsbreytinga?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -