Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.8 C
Reykjavik

Heiða Rún er til fyrirmyndar: „Ótrúlega margt hægt að gera til að minnka kolefnissporið okkar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Neytandi vikunnar, Heiða Rún Sveinsdóttir, býr á Selfossi ásamt Martin eiginmanni sínum og táningunum, Gabríel Mána og Bryndísi Lilju. Einnig býr á heimilinu mini púðlan hún Ronja. Heiða Rún starfar sem fjölskyldufræðingur og ráðgjafi hjá Velferðarþjónustu Árborgar.

Hvernig sparar þú í matarinnkaupum?

Besta ráðið mitt hingað til hefur verið að senda manninn minn í búðarferðirnar frekar en mig sjálfa. Hann er mikill ,,lista-maður’’ og verslar einungis það sem er á innkaupalistanum hverju sinni á meðan ég virðist alltaf koma heim með mun meira en það sem var á listanum. Annars þetta klassíska, gera matseðil fyrir vikuna og versla samkvæmt honum. Á mínu heimili verslum við sirka 2x i viku, í byrjun viku og fyrir helgarnar. Það hefur reynst okkur betur heldur en ein búðarferð fyrir alla vikuna því oft breytast plön, það eru afgangar sem hægt er að nýta í aðra máltíð og því þarf að breyta matseðlinum. Þegar ég verslaði einu sinni í viku sat ég sat oft uppi með hellings mat í lok viku sem ekki var borðaður og þurfti jafnvel að henda, ég þoli fátt minna en að henda mat. Ég er dugleg að elda úr því sem til er hverju sinni og ef afgangar hafa ekki verið borðaðir daginn eftir smelli ég þeim í frysti í skammtastærðum og tek með mér í vinnu í stað þess að kaupa mér hádegismat. Ég er farin að frysta nánast allt, og þá meina ég allt. Ef grænmeti hjá mér er að slappast sker ég það niður og smelli í frystipoka og á nánast alltaf helling af grænmeti í súpur og kássur sem annars hefði verið hent. Ég man eiginlega ekki eftir því hvenær ég keypti grænmeti í súpu síðast. Ég kaupi oft grænmeti á síðasta séns, fullan poka á 50-99 kr. og sker niður í frystinn. Ég safna líka í poka í frystinum hýði, kjarna og afskurði af grænmeti- í raun allt það sem maður sker frá og hendir, og sýð svo niður og bý til dýrindis soð og sleppi því öllum krafti. Ég frysti líka ávexti, það er geggjað að frysta t.d. lime, sítrónur og appelsínur í bátum og skella svo út í vatnsglasið, já eða í partýdrykkinn og nota sem klaka. Aðra ávexti frysti ég og nota út í búst eða bökur. Ég frysti enda af oststykki og aðra osta og ríf svo niður á pizzur. Þegar ég hef farið erlendis tæmi ég yfirleitt ísskápinn og frysti allt sem hægt er. Næsta skref verður að reyna að versla fisk og kjöt í magni beint frá söluaðila þar sem fiskur og kjöt er orðin alger lúxus vara og brennir yfirleitt gat á budduna.

Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra?

Já ég reyni að endurnýta eins og hægt er en betur má en duga skal, ég get algerlega gert
betur í þeim efnum. Þegar ég til dæmis fór að vera meðvituð um allt það plast sem maður er að kaupa á hverjum degi fékk ég nett sjokk. Ég var til dæmis með hamborgara og franskar í matinn um daginn. Frönskurnar og hamborgarabrauðið og salatið voru í plastpokum, tómatarnir í plastdóstum, agúrkan í plastvafningi og sósan í plastdós. Þetta er gríðarlegt magn af plasti og einungis ein máltíð. Sem betur fer er plast þannig að hægt er að nýta það aftur og aftur og í þessu tilfelli skolaði ég allar plastumbúðir og endurnýti á heimilinu. Einnig skola ég t.d. álpappír og bökunarpappír og nota aftur. Ónýt handklæði klippi ég niður og nota sem fjölnota bómullarskífur eða tuskur. Ég nota glerkrukkur og önnur ílát undan matvöru fyrir afganga, nesti og boozt í stað þess að kaupa plastílát. Ég skola mjólkurfernur og nýti til dæmis sem bökunarform, sem sáningarbakka eða sem undirpott fyrir blóm. Ég safna endum og öllum afgöngum af brauði og öðru korni, þurrka og myl niður í rasp eða fuglafóður. Um jól og afmæli safna ég pakkaborðunum af jólapökkum og endurnýti næsta ár. Ég hef líka notað litlu hvítu pokana undan lyfjum í apóteki undir t.d. peningagjafir, tek límmiðann af eða krassa yfir hann og bý svo til dúsk eða blóm úr servíettu og lími yfir. Ég er nýfarin að láta gera við föt og breyta þeim í stað þess að henda og kaupa ný. Fatnað og aðra hluti á heimili sem ekki er lengur í notkun gef ég áfram í stað þess að henda. Mitt ráð til annarra væri að byrja einhversstaðar, t.d. með því að endurnýta plastumbúðir og smátt og smátt auka neytendavitundina. Það er svo margt sem hægt er að gera til að endurnýta og minnka kolefnissporið okkar.

Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað og gjafir?

- Auglýsing -

Yfirleitt uppruna, verð og gæði. Við kaup á mat hugsa ég einnig t.d. um magn og reyni frekar að kaupa magnpakkningar frekar en margar litlar og minnka þannig umbúðir. Þetta á einnig við um snyrtivörur eins og krem, sjampó, sápur, tannkrem o.fl. Við kaup á fatnaði tel ég mikilvægt að skoða gæði vörunnar, vissulega er fatnaður úr gæðaefnum oft dýrari en endist jafnframt lengur og því bæði ódýrari og umhverfisvænni þegar uppi er staðið. Ég verð að viðurkenna að við kaup á gjöfum hef ég minna velt þessu fyrir mér, ég hef ég yfirleitt keypt það sem ég veit að viðkomandi langar í. Ég er þó farin að gefa upplifanir og samverustundir t.d. miða á tónleika eða í leikhús í auknum mæli sem er bæði umhverfisvænna og endist lengur í minningabankanum.

Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á?

Þykkum, djúsí, síðum peysum, jökkum og kápum helst sem litríkustum. Af einhverjum sökum þykja mér allar úlpur sem ég hef prufað óþægilegar og nota því mikið peysur og jakka, ég virðist aldrei eiga nóg að slíkum fatnaði. Síðustu kaup voru eiturgræn, síð kápa sem ég dröslaði með heim frá Tenerife um jólin. Í þessum töluðu orðum er ég nánast búin að tala mig inn á nauðsyn þess að eignast bleika og appelsínugula mynstraða peysu sem liggur í innkaupakerru á ónefndri vefsíðu. Einnig er ég forfallinn vintage safnari og virðist alltaf hafa pláss á litla heimilinu mínu fyrir fallega hluti með sál. Maðurinn minn er nú ekki alltaf sammála kaupunum en þá er ég svo heppin að eiga hana Sigrúnu vinkonu mína að sem deilir þessum áhuga mínum. Ég get alltaf treyst á hana við að styrkjast í trúnni um hversu sárlega mig vanti tiltekin hlut. Ég er því lítið að elta nýjustu hönnunartísku hverju sinni en get á móti þrætt nytjamarkaði eða endalaust ættleitt fallega hluti frá öðrum. Uppáhaldshlutirnir mínir hér heima eru einmitt bollastell frá ömmu Fíu heitinni og forkunnafagur vintage kuðungslampi frá ömmu Gígju heitinni.

- Auglýsing -

Skiptir umhverfisvernd þig máli?

Mjög miklu máli. Það er mér eiginlega í blóð borið. Móður amma mín og afi bjuggu alla sína tíð á Ólafsfirði og hjá þeim lærði ég að bera virðingu fyrir náttúruöflunum. Langafi minn í föðurætt hét Erlingur og var þekktur og virtur fyrir grasalækningar. Föðuramma sagði mér oft sögur af honum og um lækningarmátt grasa, jurta og náttúrunnar og sjálfri líður mér hvergi betur en í óspilltri náttúrunni. Einnig er pabbi minn mennsk alfræðibók þegar kemur að íslenskri náttúru og þó ég hefði aldrei viðurkennt það sem barn þegar hann þuldi upp hverja einustu þúfu sem við keyrðum framhjá á ferðalögum þá hef ég smitast af áhuga hans á íslenskri náttúru. Ég vil því leggja mitt af mörkum og reyni það með því að draga úr kolefnisspori mínu og fjölskyldunnar.

Það er svo ótrúlega margt hægt að gera til að minnka kolefnissporið okkar og stækka í leiðinni plássið í buddunni. Þó það virðist lítið eða ekki skipta máli þá telur allt þegar uppi er staðið. Ég til dæmis nota mikið möndlu/hnetu/kókos/fræ mjólk en bý hana til sjálf. Í fyrstu hélt ég að það væri svo mikið vesen en það tekur mig yfirleitt um 10 mínútur. Oft virðast hlutir svo ofur flóknir en eru það alls ekki þegar uppi er staðið. Ég til dæmis bjó til marga lítra af fljótandi sápu úr einu sápustykki. Í uppskriftinni var sápustykki, vatn og glyserin. Þetta orð hefði áður verið nóg til að fæla mig frá, þetta er eitthvað sem ég veit ekkert um=of flókið. Með einu gúgli komst ég að því að þetta fæst í nánast hverju einasta apóteki landsins. Með þessu hugarfari hef ég einnig til dæmis búið til frá grunni krem, varasalva, andlitstóner, saltskrúbb, hárnæringu, híbýlailm og svo mætti endalaust lengi telja. Eina sem þarf til er áhugi og nenna. Mikilvægast að öllu að muna að margt smátt gerir eitt stórt, að gera eitt er betra en að gera ekki neitt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -