Neytandi vikunnar er Jónína Guðrún Gunnarsdóttir 60 ára og menntaður iðjuþjálfi. Hún starfar sem forstöðumaður Iðju sem er dagþjónusta fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir í sveitarfélaginu Skagafirði. Jónína er gift Trausta Hólmari Gunnarssyni rafvirkjameistara hjá Tengli ehf. Þau eiga þrjú börn sem flogin eru úr hreiðrinu, í það minnsta með annan fótinn/vænginn. Börnin koma annað slagið í „mömmumat“ sérstaklega á hátíðum og á sunnudögum. Jónína og Trausti eiga einn bíl og húsnæði. Þau aka um það bil 70 kílómetra til og frá vinnu hvern virkan dag þar sem þau búa í dreifbýli.
Hve miklu eyðir fjölskyldan í mat og aðrar rekstrarvörur heimilisins á mánuði og hvar verslar hún helst ?
„Það er misjafnt, fer eftir því hvort hátíðisdagar eru með í tölunni eða ekki og hversu oft „blessuð börnin“ koma í mat, að meðaltali um 100 þúsund á mánuði. Ef við bætum við hreinlætisvörum og olíukostnaði þá er þetta á bilinu 150-170 þúsund á mánuði. Þá reikna ég einungis með ferðum til og frá vinnu en alla jafna gerum við matarinnkaupin í Skagfirðingabúð sem er Kaupfélagsverslun eða Hlíðarkaup sem er einkarekin verslun á Sauðárkróki, áður en við förum heim. Einstaka sinnum verslum við í Bónus á Akureyri, Hagkaup eða Nettó, sérstaklega ef við þurfum að „bregða okkur af bæ“ t.d. í læknisferð o.s.frv. Við gerum okkur ekki sérstaka ferð til að versla utan fjarðarins nema af illri nauðsyn eins og sagt er, sérsaklega núna á Covid tímum.“
Hvað með sparnað í matarinnkaupum og hverju vilt þú breyta sem neytandi ?
„Já ég reyni að spara en það er hægara sagt en gert þar sem ekki er mikil samkeppni hér á svæðinu og oftar en ekki þarf maður að versla það sem er til, oftar en ekki á uppsprengdu verði. Sem betur fer er ég alin upp við að fara vel með það sem maður á og tel mig kunna nokkuð vel að nýta afganga. Við reynum að versla þegar „tilboð“ eru t.d. á haustin og setja í kistuna, tökum slátur o.s.frv. Einnig verslum við „beint frá bónda“ í heimabyggð. Sem neytandi vildi ég gjarnan sjá lágvöruverðsverslun á svæðinu t.d. eins og Bónus til að hafa eitthvert almennilegt val.“
Leggur þú fyrir, og hvaða leiðir notar þú ef svo er ?
„Já það má segja það, bankinn sér um það fyrir mig að mestu (útgjaldadreifing) einnig er ég með reikning sem ég legg annað slagið inn á ef einhver afgangur verður á mánaðarmótum. Þetta er reikningur sem búið er að leggja inn á ansi lengi og á að nýta í utanlandsferð fjölskyldunar þegar veirufjandinn er farinn.“
Telur þú álagningu verslana sanngjarna og gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu ?
„Mér finnst álagning allt of mikil og bara skil ekki að hún þurfi að vera svona mikil. Ég tel að verð gæti verið lægra í flestum verslunum þá sérstaklega í þeim verslunum sem eru farnar að fækka starfsmönnum og láta viðskiptavini afgreiða sig sjálfa. Ég hef svo sem ekki kannað verð á síma, tryggingum og þess háttar þjónustu en það væri ekki úr vegi að gera það.“
Verðtryggð lán, óverðtryggð lán eða engin lán ?
„Já, ég er með gamalt verðtryggt lán sem á þeim tíma stóð einungis til boða auk námsláns !!!! Annars erum við svo „gömul“ að hugsunin er, ekki kaupa það sem þú þarft að taka lán fyrir.“
Umhverfisvernd, skiptir hún þig máli ?
„Já, hún gerir það upp að vissu marki. Ég er af þeirri kynslóð sem var ekkert sérstklega kennt að hugsa um umhverfisvernd eins og hún er orðin í dag en ég fylgist grannt með og já, ég reyni að velja vistvænar vörur frá fyrirtækjum sem huga að náttúrunni. En t.d. læt ég vatnið ekki renna á meðan ég tannbursta mig, ég læt ekki renna stöðugt þegar ég er í sturtu þó svo við höfum nóg af vatni.
Ég mætti vera duglegri við að flokka en þetta er allt að koma. Ég hendi ekki fatnaði, fer með hann í Rauða krossinn þ.e.a.s. ef ég nýti hann ekki í tætlur sem ég geri mikið af því ég kaupi ekki oft fatnað. Ég kaupi fatnað sem ég sé fram á að nota en ekki hanga inn i skáp. Ég eltist ekki við tískubylgjur hvort sem um fatnað eða heimilisvörur/húsgögn er að ræða og höfum við hjónin skapað okkar eigin stíl sem samanstendur af gömlu og nýju í bland og stuðlum þannig að sparnaði og umhverfisvernd. Svo er miklu skemmtilegra að eiga hluti með „sögu“ t.d. á ég skenk og stofuborð sem móðurafi minn smíðaði á sínum tíma. Ég hef aldrei skilið tískufyrirbærið „Omaggio.“
Kaffi er drykkurinn á heimilinu og eigum við uppáhellingarkönnu því mér finnst það best og umhverfisvænast. Ég hef velt því fyrir mér hvort ég ætti að fá mér rafbíl eða tvinbíl þar sem við keyrum ansi mikið vegna staðsetningar heimilis og vinnu. Þeir eiga víst að vera „umhverfisvænir“ að fróðra manna sögn. En ég spyr mig eru þeir eitthvað umhverfisvænni þegar upp er staðið. ? Hvað verður um rafhlöðurnar og gumsið sem er í þeim o.s.frv. ? !!!! Einnig er ég nokkuð viss um að allur aksturinn hjá okkur hjónum kemst ekki í hálfkvisti við einkaþotur allra milljarðamæringanna sem fara út um allar trissur. Ég held að þeir/þær séu mun stærra vandamál framtíðarinnar fremur en akstur okkar „gömlu hjónanna“ í sveitinni.“