Sigmar Guðmundsson er neytandi vikunnar hann býr með unnustu sinni og tveimur börnum, þeim Kötlu og Krumma í Reykjavík. Sigmar á einnig eldri börn sem búa ekki á heimilinu. Hann hefur starfað sem fjölmiðlamaður á RÚV undan farin ár en hefur nú söðlað um og býður sig nú fram til Alþingis í 2. sæti á framboðslista Viðreisnar í suðvesturkjördæmi.
Hve miklu eyðir fjölskyldan í mat og aðrar rekstrarvörur heimilisins á mánuði og
hvar verslar hún helst ?
„Ég er ekki alveg með það á hreinu hvað við eyðum miklu í mat á mánuði en ég gæti trúað að það væru svona um 140 þúsund. Við verslum lang mest í Krónunni, stærri innkaup eru að mestu gerð þar. Við reynum að forðast dýrari búðirnar því það getur munað mjög miklu í verði. Við verslum þó stundum í Hagkaup ef það vantar eitthvað sérstakt kjöt eða ferskvöru sem ekki fæst annars staðar“.
Hvað með sparnað í matarinnkaupum og hverju vilt þú breyta sem neytandi ?
„Sparnaðurinn felst mest í að halda sig við lágvöruverðsbúðirnar eins og kostur er. Við kaupum líka mikið til sömu hlutina og erum frekar íhaldssöm í innkaupum, þekkjum ágætlega inn á hvað börnin vilja og högum innkaupum í samræmi við það sem svo aftur stuðlar að minni matarsóun. Ég er ekki í neinum vafa um að það er hægt að lækka matarverð verulega á Íslandi, en til þess þarf að laga til í landbúnaðarkerfinu, tollamálum og skipta um gjaldmiðil. Ég held að það síðastnefnda sé reyndar eitt brýnasta hagsmunamál heimilanna, bæði þegar kemur að mat og öðrum aðföngum“.
Leggur þú fyrir, og hvaða leiðir notar þú ef svo er ?
„Við leggjum mánaðarlega til hliðar til að eiga fyrir óvæntum útgjöldum og ferðalögum og þess háttar. Við eyðum talsvert minna í ferðalög nú en áður með því að fara í íbúðarskipti á sumrin. Ég get ekki mælt nógu sterklega með því, bæði kemur það vel út fjárhagslega auk þess sem það er talsvert skemmtilegra þegar maður er með lítil börn, skemmtilegri og ódýrari frí. Þá borgum við aukalega inn á lán til að draga úr vaxtakostnaði og stytta lánstímann. Því fyrr sem húsnæðislánin eru kláruð, því betra“.
Telur þú álagningu verslana sanngjarna og gerir þú verðsamanburð á vörum og
þjónustu ?
„Það er erfitt að alhæfa með álagningu, hún er stundum sanngjörn og stundum er okrað. Ég geri verðsamanburð og pæli í hlutum þegar um dýrari vörur er að ræða. Konan mín er hinsvegar mikill snillingur þegar kemur að þessum málum, hún er ótrúlega séð og klár, ekki síst þegar kaupa á föt á börnin. Hún hugsar fram í tímann og finnur gæðaföt á útsölum og með góðum afslætti“.
Verðtryggð lán, óverðtryggð lán eða engin lán ?
„Auðvitað er best að vera ekki með nein lán en fæst venjulegt fólk hefur tök á því, a.m.k. ef menn vilja eignast þak yfir höfuðið. Í dag myndi ég mæla með óverðtryggðum lánum og reyna að borga þau sem hraðast niður. Verðtryggðu lánin hjálpa hins vegar þeim sem hafa minnstu greiðslugetuna en þau lán eru auðvitað rándýr, eðli málsins samkvæmt. Verðtryggingin er vel skilgreint afkvæmi íslensku krónunnar og verður við lýði á meðan krónan er. Um hver einustu mánaðamót, þegar ég borga af húsnæðisláninu, hugsa ég dapur til þess hve íslensk heimili borga svimandi háa vexti miðað við þau lönd sem við miðum okkur helst við, grátlegt alveg“.
Umhverfisvernd, skiptir hún þig máli ?
„Já hún skiptir miklu máli. Við reynum að forðast matarsóun og höfum reyndar dregið talsvert mikið úr neyslu á mínu heimili. Fatainnkaup eru til að mynda allt önnur og skynsamlegri í dag en áður og við losuðum okkur líka við annan bílinn og keyptum rafmagnshjól í staðinn. Við reynum að gera þessa litlu hluti sem heimili geta gert, því þeir skipta máli“.
Hvaða mál og málaflokka telur þú að þurfi að leggja meiri áherslu á ?
„Það skiptir okkur gríðarlega miklu máli sem neytendur að skipta um gjaldmiðil og í því felst stærsta kjarabótin að mínu mati. Umhverfismálin eru líka risastór málaflokkur sem teygir sig auðvitað niður í alla anga samfélagsins. Þau eru reyndar þannig málaflokkur að allar ákvarðanir sem teknar eru þurfa að taka mið af umhverfinu. Við sjáum það á biðlistunum í heilbrigðiskerfinu að þar þarf heldur betur að taka til hendinni. Svo er líka mjög brýnt að styðja við nýsköpun og frumkvöðlahugsun og leggja talsvert meira fé til uppbyggingar tæknigeira og vísindastarfs. Verum líka óhrædd við að endurskoða og betrumbæta kerfin okkur, til að mynda velferðarkerfin, landbúnaðarkerfið og sjávarútveginn þannig að þau þjóni almenningi en ekki einhverjum sérhagsmunum. Þar er nú heldur betur hægt að taka til hendinni“.