Vel á annað þúsund ferðalanga kemst hvorki lönd né strönd í sumarfríinu vegna pakkaferða sem ekki fást endurgreiddar. Á sama tíma og fólk er hvatt til að ferðast innanlands er sparifé fjölmargra fjölskyldna bundið hjá ferðaskrifstofum í formi inneignar. Í rauninni má líta svo á að neytendur „láni“ ferðaskrifstofunum peninga og það á 0% vöxtum.
Neytendasamtökunum hafa borist yfir 200 mál vegna pakkaferða sem ekki hafa fengist endurgreiddar og segir Breki Karlsson, formaður samtakanna, að bagalegt sé fyrir margar fjölskyldur að komast hvorki lönd né strönd í sumarfríinu. „Fólk er hvatt til að ferðast innanlands en hvernig á það að geta ferðast innanlands ef ferðasjóðurinn er fastur í inneignarnótu sem það getur notað eftir ár eða tvö,“ segir Breki. Málin sem um ræðir snerta vel á annað þúsund ferðalanga.
Úrval-Útsýn og Heimsferðir eru á meðal þeirra sem ekki hafa endurgreitt viðskiptavinum en gefið út inneignarnótur. Í tölvupósti sem viðskiptavini barst frá Heimsferðum segir meðal annars: „Stjórnvöld hafa leitað leiða til þess að mæta þessu og núna liggur fyrir Alþingi frumvarp, sem mun heimila ferðaskrifstofum að greiða viðskiptavinum með inneignarbréfi til 12 mánaða. Að þeim tíma loknum á viðskiptavinurinn rétt á endurgreiðslu, ef inneignin hefur ekki verið nýtt á þessu tímabili til kaupa á nýjum ferðum. Heimsferðir hafa ákveðið að bjóða þeim viðskiptavinum sem nýta slíka inneign til kaupa á nýrri ferð 5% álag, sem þakklætisvott fyrir aðstoðina.“
„Fólk er hvatt til að ferðast innanlands en hvernig á það að geta ferðast innanlands ef ferðasjóðurinn er fastur í inneignarnótu sem það getur notað eftir ár eða tvö.“
Í pósti frá Úrval-Útsýn kom eftirfarandi fram: „Úrval-Útsýn er með lögbundna tryggingu vegna pakkaferða hjá Ferðamálastofu. Sú trygging nær yfir allar inneignir sem viðskiptavinir okkar eiga hjá okkur í pakkaferð. Munu því allir sem eiga inneignir hjá okkur fá allt sitt endurgreitt ef kæmi til lokunar.“
Neytandinn á að hafa val
Ekki náðist í Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóra Heimsferða,
Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands [Úrval-Útsýn], segir að ferðaskrifstofan muni endurgreiða þeim sem það kjósa en margir hafi viljað fá inneignarnótu í stað endurgreiðslu eða kosið að ferðast síðar. „Við vorum í raun alveg stopp því við greiðum fyrir okkar þjónustu fyrirfram þannig að við vorum ekki búin að fá endurgreitt frá flugfélögum eða hótelbirgjum. En nú erum við hægt og rólega að fá endurgreitt þannig að við erum að byrja að endurgreiða viðskiptavinum,“ segir Þórunn og minnist jafnframt á að meirihluti viðskiptavina hafi sýnt einstaka þolinmæði í ljósi aðstæðna og séu þau þakklát fyrir það.
Þetta kemur þó ekki heim og saman við málafjöldann sem borist hefur Neytendasamtökunum sem, samkvæmt formanni þeirra, eru í óðaönn að liðsinna ósáttum neytendum.
Samtökin hafa komið með tvær tillögur hvað þetta varðar. Annars vegar að ferðaþjónustunni verði heimilt að bjóða inneign sem verði innleysanleg eftir 12 mánuði. „Inneignin beri vexti sem til dæmis tækju mið af dráttarvöxtum Seðlabanka Íslands á hverjum tíma (eru nú 9,50%) til að neytendur sjái hag sinn í að lána fé sitt,“ eins og það er orðað á vef samtakanna.
Hin tillagan er sú að komið yrði á sjóði sem myndi kaupa inneignarnótur þeirra neytenda „sem ekki geta eða vilja lána fé sitt“.
Fyrri tillagan var kynnt 17. mars og sú seinni skömmu síðar. Ekki hefur verið brugðist við þessum tillögum á þar til bærum stöðum.
Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði Mannlífs.
Umsjón / Malín Brand
Ertu með ábendingu? Sendu á [email protected]