Nína Gautadóttir myndlistarkona lést þann 13. desember, 78 ára að aldri.
Morgunblaðið sagði frá andláti hennar og rakti lífshlaup hennar. Nína fæddist í Reykjavík 28. júní 1946. Foreldrar hennar eru Elín Guðjónsdóttir og Gauti Hannesson.
Nína stundaði nám við Hjúkrunarskóla Íslands. Eftir útskrift þaðan hélt hún til Parísar og lærði myndlist í Beux-Arts. Hún vann fyrir sér meðfram náminu sem einkahjúkrunarkona. Hún útskrifaðist úr málaradeild Beaux-Arts 1976 og fór síðan í framhaldsnám í vefnaði og skúlptúr. Í grein Morgunblaðsins segitr að hún hafi í list sinni gjarnan blandað tækni þessara greina saman. Verk hennar voru gjarnan þrívíð, stór og kraftmikil. Hún fluttist til Afríku, bjó í Kamerún, Saír og Níger þar sem hún kynntist hirðingjaþjóðflokknum Tuareg og lærði að vinna litríkar myndir í leður.
Eftir það sneri hún sér að málverkinu, vann m.a. með egypskar híeróglýfur og gerði eftirminnilegt 80 metra langt málverk byggt á sögunni Umhverfis jörðina á 80 dögum. Hún málaði fjölda mynda sem eru innblásnar af íslenskri náttúru.
Nína hélt á ferli sínum yfir 30 einkasýningar og tók þátt í mörgum samsýningum.
Nína varði mastersgráðu í sálgreiningu við Université Paris 8 árið 2003. Hún lauk prófi úr Leiðsöguskóla Íslands 2008 og starfaði nokkuð við leiðsögumennsku eftir það. Hún bjó í París frá 1970 en kom alltaf til Íslands á sumrin. Hin síðari ár dvaldist hún sífellt meira á Íslandi.
Nína lætur eftir sig þrjú börn og fjögur barnabörn, sem öll búa í Frakklandi.