Laugardagur 11. janúar, 2025
4.8 C
Reykjavik

„Níu af hverjum tíu sem fremja sjálfsmorð eru karlar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Atli Óskar Fjalarsson og Viktor Sigurjónsson vinna að nýrri mynd um stöðu stráka í samfélaginu. Myndin kallast Lífið á eyjunni og er markmið hennar að vekja athygli á geðheilsu drengja.

„Við Viktor kynntumst á kvikmyndasetti í fyrra. Þá var ég nýbúinn að stofna hóp sem heitir Strákahittingur í kjölfar #metoo-byltingarinnar þar sem karlar geta rætt tilfinningar og hluti sem yfirleitt er ekki leyfilegt að tala um ef maður er strákur og ég var eiginlega í sjokki yfir því hvað margir viðurkenndu að þeir ættu erfitt með að tjá tilfinningar sínar og opna sig um erfiða hluti eins og til dæmis kynferðisofbeldi. Við Viktor fórum að ræða þetta og þá kom í ljós að hann var búinn að skrifa uppkast að stuttmynd um einmitt svipaða hluti. Við vorum sammála um svo margt og það varð til þess að hann bauð mér að vera með sér í gerð myndarinnar. Í framhaldinu skrifuðum við saman handritið,“ lýsir Atli, þegar hann er spurður að því hvernig hugmyndin að myndinni hafi kviknað.

Að hans sögn fjallar hún um 12 ára strák úti á landi, Braga, sem er frjór og skemmtilegur en á erfitt með nám og er félagslega einangraður. Hann tekur upp á því að stofna hljómsveit með strák sem er nýfluttur í bæinn og uppgötvar við það kraft tónlistar og vináttu. Atli segir myndina endurspegla stöðu margra í dag þar sem sífellt erfiðara sé fyrir stráka og karlmenn að fóta sig í samfélaginu.

„Leiðin sem við förum til að segja söguna á eftir að vekja þörf til að tala um hlutina og það er það sem við viljum. Við viljum skapa umræðu.“

„Staðan er verri. Sjáðu bara menntakerfið, hvað mikið brotfall er hjá strákum í menntaskóla og hvað miklu færri strákar en stelpur eru skráðir í háskóla og sem ljúka háskólanámi. Þá sýna rannsóknir að einn af hverjum fimm körlum á ekki náinn vin, sem segir okkur að ef viðkomandi á engan að sem hann getur leitað til þegar eitthvað bjátar á þá eru auknar líkur á að hann leiti „annarra lausna“. En þegar ég tala um aðrar lausnir þá meina ég sjálfsvíg en níu af hverjum tíu sem fremja sjálfsmorð eru karlar.“

Gat ekki tjáð sig um eigin líðan

Sjálfur segist Atli hafa upplifað það að koma að luktum dyrum í menntakerfinu og ekki fundist hann getað tjáð sig opinskátt um eigin líðan. „En sem betur fer á ég góða vini og fjölskyldu sem hafa stutt við bakið á mér ef lífið hefur verið erfitt. Því miður eru ekki allir strákar svo heppnir og að mínu mati verðum við að brúa bilið á milli þessara eyja sem þeir búa á. Þess vegna heitir myndin okkar Lífið á eyjunni.“

Hann segir að markmiðið með gerð hennar sé að vekja fólk til umhugsunar um þessi mál. Hann og Viktor stefni að því að sýna hana í skólum landsins og fylgja því eftir með fyrirlestrum eða málþingum. „Leiðin sem við förum til að segja söguna á eftir að vekja þörf til að tala um hlutina og það er það sem við viljum. Við viljum skapa umræðu. Að fólk ræði þessi mál opinskátt. Þá er markmiðinu náð.“

- Auglýsing -

Tökur á myndinni standa nú yfir á Seyðisfirði þar sem hún kemur til með að verða frumsýnd í nýuppgerðu kvikmyndahúsi bæjarins seinna á árinu en alls er myndin búin að vera átta mánuði í vinnslu. Að sögn Atla hefur sá tími m.a. farið í handritaskrif, fjármögnun og framleiðslu. Töluverð vinna hafi líka farið í viðræður við ýmis ráðuneyti um aðkomu þeirra að verkefninu og miðað við góðar viðtökur Velferðarráðuneytisins segist hann vona að fleiri ráðuneyti komi til að með styrkja það. „Stuðningurinn skiptir bara svo miklu máli, því þetta er mynd og umræða sem á erindi við alla,“ segir hann og getur þess að þeir Viktor séu líka með söfnun í gangi vegna myndarinnar á Karolina Fund.

Mynd að ofan: Atli Óskar Fjalarsson, annar handritshöfunda og framleiðandi stuttmyndarinnar Lífið á eyjunni, segist vona að myndin muni skapa umræður um báglega stöðu drengja á Íslandi.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -